138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

veiðar á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.

489. mál
[14:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Rjúpnaveiðar, gæsaveiðar og hreindýraveiðar hafa verið stundaðar á Íslandi um langt skeið. Sú er hér stendur kom sérstaklega að þessum málum á sínum tíma í sambandi við rjúpnaveiðarnar en þá lá stofninn mjög lágt. Ég vil rifja það upp að Sjálfstæðisflokkurinn kom í veg fyrir að við gætum sett á sölubann í fyrra skiptið, en sú er hér stendur tók þá ákvörðun að banna rjúpnaveiðar og það varð til þess að hægt var að endurreisa stofninn. Núna hafa veiðar verið stundaðar aftur og það er mjög mikilvægt að þær veiðar séu sjálfbærar. Ég styð eindregið rjúpnaveiðar þó að ég hafi bannað þær á sínum tíma en þær verða að vera sjálfbærar.

Nú er svo komið að í drögum að verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð kemur fram á bls. 122 að banna eigi þessar hefðbundnu og sjálfbæru veiðar. Þess vegna vil ég gjarnan spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Er það rétt að til standi að banna hefðbundnar og sjálfbærar veiðar á rjúpum, gæsum og hreindýrum á svæðum á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs þar sem veiðar hafa hingað til verið leyfðar og ef svo er, hver eru rökin fyrir slíkri ákvörðun?

Reyndar kemur fram í drögunum að rökin séu þau að þetta skapi meira eftirliti fyrir landverði, þetta eru auðvitað fáránlega veik rök, og að þarna geti skapast hætta af akstri, á gróðurskemmdum vegna aksturs, það á þá væntanlega við alls staðar. Þetta eru heldur ekki rök sem halda og það er hægt að koma í veg fyrir það án þess að banna veiðar.

Í öðru lagi vil ég spyrja: Ef svo er, hefur verið haft samráð við hagsmunaaðila, svo sem Skotveiðifélag Íslands, Skotveiðifélag Austurlands, hreindýraráð, Félag leiðsögumanna með hreindýrum og ferðaþjónustuaðila á Austurlandi?

Mig grunar nefnilega að ekki hafi verið haft neitt samráð, reyndar hefur Skotveiðifélag Íslands sent frá sér sérstaka ályktun þar sem kemur fram að ekki hafi verið haft neitt samráð við þá.

Í þriðja lagi vil ég spyrja: Er það rétt að á fundum nefndar um stofnun þjóðgarðsins hafi margoft komið fram að veiðar skyldu ekki vera bannaðar eða takmarkaðar frá því sem nú gildir?

Hagsmunaaðilar fullyrða að svo hafi verið. Ég verð að segja, virðulegur forseti, að miðað við ályktun stjórnar Skotveiðifélags Íslands, held ég að svo geti jafnvel verið að menn hafi nánast verið plataðir. Ef það er rétt, og ég vona að hæstv. ráðherra geti varpað betur ljósi á það á eftir í svari sínu, finnst mér það svolítið alvarlegt. Nýverið var umræða um það að víkja eigi yfirstjórn þjóðgarðsins frá og færa valdið heim í hérað. Ef menn ganga fram af svona hörku, ef það er meiningin, (Forseti hringir.) minnkar öll samstaða um slíka verndun á Íslandi. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt og skora á ráðherrann að draga þessar hugmyndir til baka.