138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

veiðar á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.

489. mál
[14:15]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrirspurnina. Varðandi fyrstu spurninguna um hvort til standi að banna hefðbundnar og sjálfbærar veiðar á rjúpum o.s.frv. er það svo að við undirbúning á stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs var við það miðað að hefðbundin landnýting, svo sem beit og sjálfbærar veiðar, gæti haldið áfram innan þjóðgarðsins á vissum svæðum eins og verið hefur. Samkvæmt lögum um Vatnajökulsþjóðgarð skal stjórn þjóðgarðsins vinna tillögu að verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn til umhverfisráðherra og væntanlega liggur sú tillaga enn þá frammi í drögum sem þingmaðurinn er að vísa til. Stjórn þjóðgarðsins vinnur nú að verndaráætlun og því er ekki ljóst hvort áætlunin muni hafa einhver áhrif á hefðbundnar nytjar innan þjóðgarðsins.

Samkvæmt upplýsingum stjórnarinnar, sem aflað var vegna þessarar fyrirspurnar, hefur svæðisstofa Austursvæðis lagt til að veiðar verði takmarkaðar á mjög afmörkuðu svæði kringum Snæfell vegna þess m.a. að viðkvæmur gróður á svæðinu þolir litla umferð. Um er að ræða mjög viðkvæman mosagróður sem krefst jafnvel stýringar á umferð göngufólks. Þá er votlendið á Þórisey og nágrenni viðkvæmt fyrir umferð, auk þess sem þar er stór fellistaður og varplönd heiðagæsa. Svæðið er auk þess talið henta einkar vel til gönguferða og fræðslutengdrar ferðamennsku, rannsókna og náttúruskoðunar, m.a. skólahópa á haustin.

Það er skoðun svæðisstjórnar Austursvæðis að framangreind ferðamennska og veiðar samræmist illa og æskilegt sé að kynna svæðið sem friðland.

Þingmaðurinn spyr líka hvort haft hafi verið samráð við hagsmunaaðila. Ég hef leitað eftir því sérstaklega og mér er tjáð að svæðisráð Austursvæðisins hafi fundað með hagsmunaaðilum um málið, þar með talið fulltrúum úr stjórn Skotveiðifélags Austurlands og Félagi leiðsögumanna með hreindýraveiðum.

Þingmaðurinn spyr loks um hvort fram hafi komið að veiðar skyldu ekki vera bannaðar eða takmarkaðar frá því sem nú gildir. Eins og kom fram í máli mínu hér á undan var lögð áhersla á við undirbúning að stofnun þjóðgarðsins að hefðbundin landnýting gæti haldið áfram innan hans eins og verið hefur með sjálfbærum hætti. Þeirri stefnu hefur ekki verið breytt í grundvallaratriðum.

Í skýrslu nefndar um stofnun þjóðgarðs fyrir norðan Vatnajökul og í skýrslu ráðgjafarnefndar umhverfisráðuneytisins um Vatnajökulsþjóðgarð eru m.a. sýnd svæði þar sem þessar nefndir gerðu ráð fyrir að hefðbundin landnýting héldi áfram eftir stofnun þjóðgarðsins. Við það hefur verið miðað að þjóðgarðurinn í heild geti flokkast sem verndarsvæði 2 samkvæmt IUCN-skilgreiningu sem þýðir að innan við 25% af svæði þjóðgarðsins gæti verið í lægri verndarflokki en 2 og gæti því verið flokkað sem svæði með hefðbundinni landnýtingu. Nánari útfærsla á þessari skiptingu kemur fram í reglugerð og verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn þegar þar að kemur.