138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

veiðar á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.

489. mál
[14:23]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég bið nú hv. þingmenn að halda samhengi hlutanna til haga. Hér er verið að tala um, eins og kom fram í svari mínu, takmörkun á veiðum á mjög afmörkuðu svæði kringum Snæfell. Svæðisráð Austursvæðisins hefur lagt þetta til í drögum að verndaráætlun sem væntanlega verður lögð fyrir umhverfisráðherra í fyllingu tímans. Að tími sé kominn til þess að ég dragi eitthvað til baka samræmist ekki eðlilegu ferli þessa máls. Stjórn þjóðgarðsins er að störfum að því er varðar þessa tillögu og mun ljúka þeirri tillögugerð á grundvelli þeirra gagna sem fyrir liggja. Það er langeðlilegasta leiðin til að vinna þetta.

Hér er rætt eins og standi til að stöðva veiðar algjörlega á svæðinu. Ég vil halda því til haga að við erum að tala um mjög afmörkuð svæði þar sem mörkin eru þannig að austurmörkin fylgja austustu kvísl Jökulsár í Fljótsdal frá upptökum og norður að Eyjabakkavaði, þaðan er bein lína í vestur í Sótavistir og frá þeim yfir á toppinn á Sandfelli. Frá þeim toppi yfir á Nálshúshnjúka og síðan á toppinn á Tíutíu og línan fylgir svo Snæfellsslóð, hvar hún fer yfir Grjótlæki og að vaði yfir Langahnjúk, þar sem hún fer í topp til hans og þaðan í topp til Ketilhnjúks o.s.frv. Beint þaðan yfir í Litla-Snæfell og yfir í Eyjabakkajökul. Það skiptir máli að halda því til haga að það þjónar engum hagsmunum að afflytja það svo að hér séu einhverjar tillögur uppi um að banna veiðar á öllu svæðinu. Hér er verið að tala um mjög takmarkað svæði og verið er að gera það vegna mjög viðkvæms mosagróðurs á svæðinu. Mikilvægast af öllu við alla umsýslu í þjóðgörðum er að friður sé í sambúð manns og náttúru. Það er markmiðið.