138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

forvarnir gegn einelti.

435. mál
[14:38]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir svörin og lýsi ánægju minni með að samþættar aðgerðir þvert á ráðuneyti séu í bígerð. Einnig er ég mjög ánægð með að skólar og sveitarfélög geti fengið aðstoð við að bæta skólabrag því að áreiðanlegt er að skólabragurinn getur haft mikil áhrif.

Eineltismál koma upp í mannlegum samskiptum. Það er þekkt og á vinnustöðum taka lög yfir meðferð slíkra mála. Nú hafa 80 grunnskólar tekið þátt í Olweusar-áætluninni samkvæmt svari hæstv. ráðherra. Ég velti fyrir mér öðrum skólum. Hvað eru þeir að gera? Það ætti að vera krafa foreldra að þeir geti án undantekninga farið á heimasíðu þess skóla sem barnið þeirra sækir og fengið þar upplýsingar um hvernig skólinn bregst við þegar eineltismál koma upp. Ferillinn þarf að vera skýr og skráður sem hluti af skólastarfinu.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið ætti að gera þá kröfu og fylgja því fast eftir að allir sem vinni með börnum setji sér skýr markmið við lausn eineltismála og lausnaferlar séu ljósir. Ef barn verður fyrir einelti þurfa bæði starfsmenn og foreldrar að þekkja ferlana og þann farveg sem málin fara í. Þetta á auðvitað við um skóla en einnig um alla aðra starfsemi þar sem unnið er með börnum. Mér er kunnugt um að mörg íþróttafélög sinna þessum málum mjög vel en krafan hlýtur að vera að þau geri það öll.

Við ættum að líta svo á að viðbúið sé að einelti komi upp í samskiptum fólks, halda vöku okkar og taka fast á eineltismálum. Aðhald og eftirlit af hálfu ráðuneytisins er lykilatriði hvað þetta varðar og í samstarfi við sveitarfélögin er hægt (Forseti hringir.) að sjá um að allir skólar geri slíka áætlun.