138. löggjafarþing — 110. fundur,  21. apr. 2010.

forvarnir gegn einelti.

435. mál
[14:40]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að sjálfsagt er að foreldrar hafi aðgang að viðbragðsáætlunum skóla ef einelti kemur upp og að öllum sé ljós hvaða leið eigi að fara. Það er því miður nokkuð sem ég hef orðið vör við frá því ég tók við embætti að oft hefur fólk jafnvel farið hringi í kerfinu og ekki lent á réttri leið strax. Það skiptir miklu máli að þessi farvegur sé mjög skýr frá upphafi.

Skólar hafa sjálfstæði til að velja sér hvaða leiðir þeir fara, hvort þeir taka þátt í Olweusar-áætluninni eða hafa aðrar aðferðir. Sumir skólar hafa unnið eftir annarri hugmyndafræði í þessum efnum, það er sjálfsagt. Eins tek ég undir með hv. þingmanni: Foreldrar og nemendur þurfa að vita að hverju þeir ganga.

Við munum hins vegar vinna að því áfram að meta framkvæmdina á Olweusar-verkefninu sjálfu og hvernig við getum látið það spila með öðrum aðgerðum, til að mynda hvernig við getum stuðlað að góðum skólabrag og góðu samfélagi í skólunum sem er lykilatriði því að eineltismál eru samfélagsmál. Þetta er í raun og veru ekki málefni einstaklinganna heldur er þetta mein í hverju samfélagi, hvort sem það er einn bekkur eða einn vinnustaður.

Þetta hefur verið skoðað í starfshópi þessara þriggja ráðuneyta. Meðal þess sem þar er sérstaklega talað um er að Stjórnarráðið og opinberar stofnanir geti fylgt á undan með góðu fordæmi, skýrum starfsreglum og aðgerðaráætlun gegn einelti í öllum stofnunum sínum. Ég vænti þess að frekari fregnir berist af þessum tillögum á næstu vikum því að þetta er því miður útbreiddara vandamál en margur áttar sig á, ekki bara í skólum heldur víðar í kerfinu.