138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

tilhögun þingfundar.

[15:03]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegur forseti. Fyrir þinginu liggja fjölmörg mál og því ekki óeðlilegt að hæstv. forseti fari þess á leit að þingfundur geti staðið lengur í dag. Við því ætla ég svo sem ekkert að amast. Ég vil hins vegar koma hingað upp og óska eftir því að sú vinna verði hafin nú þegar sem ég veit að hæstv. forseti hefur lagt grunninn að, það er að kalla eftir því frá hæstv. ríkisstjórn og nefndarformönnum hvernig forgangsraðað verði á þessum lokadögum þingsins. Þrátt fyrir að þingið eigi ekki samkvæmt starfsáætlun að fara í leyfi eða hlé fyrr en 15. júní sér maður þegar maður skoðar dagskrána að það eru ekki ýkjamargir fundardagar. Ég óska því eftir því, frú forseti, að forgangsröðunin fari að liggja fyrir þannig að við getum tryggt að öll þau frumvörp sem afgreidd verða fyrir sumarið verði afgreidd svo okkur sé öllum sómi að.