138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

jafnvægi í ríkisfjármálum.

[15:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra í framhaldi af orðum sem hæstv. forsætisráðherra lét falla í síðustu viku eftir aðalfund Samtaka atvinnulífsins þar sem fjallað var um þörfina til að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Það hefur verið uppi ágreiningur milli ríkisstjórnarinnar og Samtaka atvinnulífsins sem leiddi til þess að Samtök atvinnulífsins stigu frá því sameiginlega verkefni sem þar er unnið að. Ágreiningurinn hefur m.a. snúist um með hvaða hætti fjárlagagatinu er lokað. Af hálfu Samtaka atvinnulífsins hefur því verið haldið fram að ríkisstjórnin hafi lagt meiri áherslu á skattahækkanir til að ná jöfnuði en aðhaldi í ríkisútgjöldum og um þetta virðist vera fullkominn ágreiningur milli ríkisstjórnarinnar og Samtaka atvinnulífsins, sem er afar óheppilegt. Af hálfu Samtaka atvinnulífsins er því haldið fram að nú megi ná jöfnuði með því að koma hagvextinum af stað og með því að skera niður um um það bil 50 milljarða, 50 milljarða samdráttur í ríkisútgjöldum og nýr hagvöxtur muni samanlagt loka fjárlagagatinu. Öll erum við sammála um að það verður að gerast sem allra fyrst.

Þá ber svo við að hæstv. forsætisráðherra stígur fram í lok síðustu viku og kynnir til sögunnar frekari skattahækkanir, sem er auðvitað útilokað að ná samstöðu um, vilji menn ná víðtæku samstarfi svipuðu því sem gilti á síðasta ári með stöðugleikasáttmálanum. Ég er því kominn hingað til að bera upp eftirfarandi spurningu við hæstv. fjármálaráðherra: Hvaða skattar eru það sem ríkisstjórnin horfir til að hækka? Hversu hátt hlutfall skattahækkana verður það á móti niðurskurði til að loka fjárlagagatinu eins og það er núna? Er það helmingurinn sem á að fara í skattahækkanir og helmingurinn í niðurskurð, eða er það eitthvert annað viðmið sem verið er að horfa til?