138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðakerfisins, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[15:52]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir það að veita okkur tækifæri og flytja þessa skýrslu, gefa okkur tækifæri til að ræða þessi mál með aðeins ítarlegri hætti en við gerum alla jafnan, t.d. í utandagskrárumræðum.

Hæstv. ráðherra lýsti samningaferlinu og forsögunni, gerði það ágætlega þótt ég væri kannski ekki sammála öllu því sem þar kom fram eða þeirri túlkun eða skýringu. En hann leiddi okkur að þeirri niðurstöðu sem menn komust að og lá fyrir á sumardaginn fyrsta. Það er kannski ágætt að niðurstaðan liggi fyrir að þessu leyti vegna þess að óvissutíminn er alltaf erfiðastur, ekki síst fyrir starfsfólk þessara stofnana sem búið hefur við mikið óöryggi í langan tíma. Þó verð ég að segja að í mínum huga er enn mikil óvissa í þessu öllu saman, kannski enn frekar eftir ræðu hæstv. ráðherra, og fjölmörgum spurningum er enn ósvarað.

Þegar við stóðum hér í haust, sumar og vetur og ræddum Icesave-málið voru ýmsir sem líktu þeirri atburðarás við kvikmynd sem heitir Groundhog Day þar sem helsta sögupersónan vaknar og það er alltaf sami dagurinn. Dagurinn líður, svo vaknar sögupersónan aftur næsta morgun og þá byrjar sami dagurinn aftur. Ég verð að segja að þessi tilvísun á við fleira en Icesave-málið vegna þess að nú líður mér eins og við séum komin ár aftur í tímann. Þeir hlutir sem ég hef áhyggjur af í sambandi við sparisjóðina eru nákvæmlega þeir sömu og við ræddum fyrir réttu ári þegar lögunum um fjármálafyrirtæki, sem hæstv. ráðherra minntist á, var breytt.

Ég hef áhyggjur af sömu atriðum og ég vakti athygli á í umræðum í fyrra. Hvað gerir sparisjóð að sparisjóði? Er sparisjóður 100% í eigu ríkisins? Er það sparisjóður? Er mögulegt að hafa slíkan sparisjóð? Hver er framtíðarsýnin? Hvernig ætlar ríkið út úr rekstrinum? Hver er hvatinn fyrir menn að koma inn í þetta nýja sparisjóðakerfi sem stofnfjáreigendur? Hvernig á að bregðast við vanda þeirra stofnfjáreigenda sem hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni, sérstaklega í Húnavatnssýslunum þar sem menn tóku lán fyrir stofnfjárkaupum sínum? Í kringum fjórðungur af íbúunum á því svæði er í gríðarlegum vandræðum. Hæstv. ráðherra líkti stofnfjárbréfunum við hlutabréf, á því er grundvallarmunur. Gleymum því ekki að þegar viðkomandi einstaklingar tóku þessa ákvörðun var litið til þágildandi laga sem giltu gegn ákveðinni tryggingu vegna þess að ef illa færi væri hægt að innleysa bréfin á genginu einn. Þetta fólk gerði sig sekt um að treysta á gildandi löggjöf, ef svo má segja.

Það er skortur á heildarsýn sem við gagnrýndum í fyrra. Eftir ræðu hæstv. ráðherra finnst mér sá skortur á heildarsýn enn vera frekar æpandi. Hæstv. ráðherra fór mjög vel yfir það hvernig t.d. hvernig Sparisjóður Mýrasýslu var innlimaður í Nýja Kaupþing. SPRON fór á hausinn og reyndar eru fyrrum viðskiptavinir SPRON í miklum vanda t.d. þegar kemur að greiðsluvandaúrræðum vegna þess að þar vísar hver á annan. BYR er núna samkvæmt nýjustu fréttum BYR hf. en Sparisjóðurinn í Keflavík er SpKef sparisjóður þannig að þarna er engin heildarsýn nema heildarsýnin sé sú að vera með nýtt trikk fyrir hvern sparisjóð sem lendir í vandræðum. En það er greinilegt í þessu öllu saman að SpKef sparisjóði er ætlað að vera hryggjarstykkið í nýju sparisjóðakerfi, enda langstærsti sparisjóðurinn sem er eftir í kerfinu. Ég ætla aðeins að gera það að umtalsefni síðar, en þá er spurning mín: Hvað með BYR hf.? Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn og ríkið með þá fjármálastofnun? Er ætlunin að búta hana niður eða er ætlunin að sameina hana annarri fjármálastofnun eða öðrum fjármálastofnunum, Landsbankanum, hinum ríkisbankanum? Hafa menn yfirleitt alltaf hugsað út í það eða kemur þetta allt í ljós síðar? Í fyrra þegar við spurðum þessara spurninga var sérstaklega tekið fram að nefndinni sem samdi það frumvarp var ekki ætlað að takast á við framtíðarsýn sparisjóðakerfisins. Það yrði að bíða betri tíma. Er sá góði tími kominn? Vitum við eitthvað um þetta núna? Hversu lengi ætlar ríkið sér að eiga þessar fjármálastofnanir? Okkur var sagt í viðskiptanefndinni fyrr í vikunni að það stæði ekki til, að það væri langur tími sem ríkið ætlaði að eiga þennan hlut. En hvernig ætlar ríkið þá út úr þessari starfsemi? Því hefur heldur ekki verið svarað, ekki heldur í nefndinni. Það var sagt að Bankasýslan mundi sjá um þetta. Það er sem sagt engin sýn, það er engin útgönguáætlun hjá ríkinu. Hæstv. ráðherra talaði um að gera ætti stofnfjáreigendum kleift að koma inn í þetta og heimamenn ættu eftir sem áður að verða tryggir bakhjarlar. En þeir gera það ekki vegna þess að hæstv. ráðherra finnst að þeir eigi að gera það. Þeir verða að hafa einhvern hvata til þess.

Við gagnrýndum ýmis atriði í fyrra, við gagnrýndum flýtinn og fórum í gegnum það mál. Við gagnrýndum líka 7. gr. sem var heimildin til niðurfærslu stofnfjár. Ég horfi á hv. þm. Guðbjart Hannesson sem tók m.a. þátt í þeirri umræðu með okkur í stjórnarandstöðunni og lýsti þeirri skoðun sinni að setja ætti á þetta eitthvert gólf til þess að hafa einhvern hvata fyrir stofnfjáreigendur til að vera inni í sparisjóðunum og viðhalda þannig hugsuninni í kerfinu. En það var talið allsendis óþarft, það stæði hreinlega ekki til að færa þetta niður í núll, en við sjáum núna hvernig þetta er. Núna er ríkið eini eigandinn að tveimur stærstu sparisjóðunum og allir nema tveir, held ég, fá einhvers konar framlag frá ríkinu. Það mun þá væntanlega færa niður stofnfé sitt.

Ef við förum aðeins að samningunum við kröfuhafana erum við búin að kalla eftir upplýsingum um allt ferlið og höfum fengið nokkra fundi. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir, allt þar til nýlega voru menn tiltölulega bjartsýnir á að þetta ferli mundi allt saman ganga upp. Þetta er búið að vera hálfgerð rússíbanareið og ég geri ekkert lítið úr því að þetta kerfi er flókið og margir aðilar komu að því. En það hefur alltaf vakið hjá mér spurningar sem gerðist í haust þegar við vorum nálægt því, eftir því sem okkur skildist, að ná samkomulagi þegar kröfuhafar voru búnir að fallast á ákveðna leið. Ríkið og allir voru komnir að ákveðinni niðurstöðu, byrjað var að gera drög að pappírunum, eftir því sem manni skildist. En þá fer ríkið fram á enn eina úttektina, sem eru annaðhvort 12 eða 13 í öllu þessu ferli. Eftir það stekkur ríkið frá borði og setur fram nýjar kröfur sem ekki var hægt að ganga að þannig að ferlið fer allt í uppnám og rennur út í sandinn. Þarna held ég að sé ákveðin vendipunktur, ekki vegna þess að það ferli hafi runnið út í sandinn þá heldur skilur maður svo sem erlendu kröfuhafana sem eru, eftir því sem maður heyrir um í fjölmiðlum, búnir að fá nóg af Íslendingum. Ef þetta hefur verið takturinn í samningaviðræðunum er ekkert skrýtið að menn fái nóg af Íslendingum. Tilfinningin sem ég hef haft, og hvernig hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra nálgaðist umræðuna áðan styrkir þá tilfinningu, er að það hafi aldrei verið neitt sérstaklega ríkur vilji til að bjarga sparisjóðunum. Menn tala um að þarna hafi einhver ægileg græðgisvæðing farið af stað. Það er næstum því eins og menn segi: Þá er þetta bara svona, þetta ætti að kenna þessu fólki. En það er kannski ekki alveg þannig sem við ættum að nálgast þetta.

En það eru margar spurningar um framtíð sparisjóðakerfisins. Eins og ég sagði áðan er Sparisjóðnum í Keflavík ætlað að vera hryggjarstykki. En hvernig hugsa menn sér sparisjóðakerfið í framtíðinni og hvað gerir sparisjóð að sparisjóði? Hér er hugmyndafræði sparisjóðanna sett fram af þeim sjálfum árið 2009, með leyfi forseta:

„Sparisjóður er sjálfseignarstofnun undir forræði heimamanna. Fjöldahreyfing einstaklinga og lögaðila sem með stofnfé og/eða viðskiptum tryggja eðlilega fjármálaþjónustu í sínu héraði.“

Þá eru það spurningarnar sem við höfum verið að spyrja í heilt ár, það er aldrei mikilvægara en nú að fá svör við þeim: Hvernig mun ríkið losa sig út úr þessum rekstri? Hvernig verður stofnfé komið í hendur heimamanna þannig að sparisjóðurinn verði fjöldahreyfing sem er bakhjarl? Verður núverandi stofnfjáreigendum gefinn forkaupsréttur? Verður öllum almenningi á svæðinu gefinn kostur á að kaupa? Stóra spurningin er þessi: Af hverju ætti einhver að vilja koma inn í þetta sem stofnfjáreigandi núna þegar ríkið er komið inn í þetta? Eftir að hafa hlýtt á ræðu ráðherra er ég eiginlega sannfærð um að markmiðið er kannski ágætt, að tryggja bankaþjónustu á landsbyggðinni, (Forseti hringir.) en eigum við þá ekki að kalla þetta réttu nafni? Er ekki verið að stofna landsbyggðarbanka í eigu ríkisins?