138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðakerfisins, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[16:03]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna hér um sparisjóðina og stöðuna sem við erum komin í varðandi það mál, ég harma að það hafi ekki gengið eftir sem lagt var upp með á síðasta ári og raunar allt frá því hrunið varð, að reyna að bjarga sparisjóðunum. Þetta er gamalt, gott og traust form og hefur verið ákveðin tegund í fjármálastarfsemi okkar. Sparisjóðirnir þjónuðu vel sinni heimabyggð og höfðu ákveðnu, mikilvægu hlutverki að gegna. En því miður þróuðust þeir eins og raun ber vitni vegna þess að ákveðnir aðilar og ákveðin lífssýn bentu á að þarna lægi inni dautt stofnfé sem þyrfti að nýta með einhverjum hætti. Hófst þá ágangur í þá veru að breyta þessu í hlutafé, helst í sölu og koma því þannig fyrir að menn gætu grætt á þessu stofnfé. Síðan þekkja menn söguna þegar þessi innreið hófst hjá sparisjóðunum líkt og hjá öðrum bönkum, þó sérstaklega hjá sparisjóðunum þar sem menn reyndu að breyta stofnfénu í hlutafé. Dæmi voru um að heilu sveitarfélögin stórykju stofnfé sitt til þess að geta tekið út meiri arð og hafa af þessu gróða.

Þetta er afleiðing af því sem menn töluðu um, að það mátti ekkert fé vera án hirðis og að menn færu ekki vel með neitt nema þeir gætu haft af því ágóða. Við höfum séð afleiðingarnar af þessari stefnu, því miður, og það er leitt að sparisjóðakerfið skuli verða fórnarlamb hennar.

Það var ákvörðun Alþingis og ríkisstjórnar, eins og ég sagði, að standa vörð um sparisjóðakerfið. Sem liður í þeirri ákvörðun var einmitt farið yfir lagafrumvarp á síðastliðnu sumri, þ.e. í júnímánuði ef ég man rétt 2009, þar sem á vissan hátt var slegin skjaldborg um sparisjóðina eða reynt að verja þá. Það var frá upphafi ákveðið að ríkisvaldið gæti komið með allt að 20% stofnfé inn í sparisjóðina til þess að verja þá. Þetta var auðvitað ákvörðun Alþingis þó að það sé rétt, sem hér hefur komið fram, að það var ágreiningur á milli þingmanna og stjórnmálaflokka hér í þinginu um með hvaða hætti ætti að gera þetta. En lögin voru engu að síður samþykkt og eftir þeim hefur verið unnið. Ég harma að ástandið hafi síðan verið verra en áætlað var á þeim sparisjóðum sem hér voru undir og að kröfuhafar skuli ekki hafa getað náð samkomulagi um með hvaða hætti ætti að stilla sparisjóðunum upp að nýju. Það endaði með því að ríkið tók sparisjóðina yfir núna á sumardaginn fyrsta líkt og gert hafði verið við bankana á sínum tíma.

Það voru líka alvarlegar yfirlýsingar sem fylgdu þessu vegna þess að innlendir kröfuhafar höfðu fallist á þær lausnir sem voru á borðinu en erlendir kröfuhafar síður eða alls ekki og var vitnað til þess að þeir hafi verið búnir að fá nóg af Íslendingum. Ég skildi það nú ekki þannig að það væri í samskiptum við stjórnvöld heldur einfaldlega vegna þess að erlent bankakerfi hefur náttúrlega fengið yfir sig þúsundir milljarða. Menn greinir á um hversu há talan er en ég held að rannsóknarskýrslan nefni 7.300 milljarða sem fallið hafa á bankakerfi Evrópu án þess að við höfum borið beinar afleiðingar af því, þ.e. einstaklingar eða ríkisvald, umfram allt það sem féll svo á íslenska skattgreiðendur og ríki.

Við sjáum því að þetta er bara hluti af þeirri auðn sem hefur skapast af því hvernig hér var farið með fjármuni á síðastliðnum árum.

Nú er málið komið til Fjármálaeftirlitsins og það er Bankasýslan sem tekur við. Það skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli, eins og hér hefur líka komið fram nú þegar, að menn móti hratt stefnu um hvernig á að láta þessa sparisjóði starfa áfram og í hvaða formi. Það er rétt sem kom fram í ræðu síðasta hv. þingmanns, þótt það hafi vakið athygli mína, að þar er eingöngu horft til ríkisins, að ríkið eigi að fara að leggja fram peninga umfram það sem áður var gert og koma þeim síðan í hendur stofnfjáreigenda. Ég veit ekki hvort hægt er að ætlast til þess að það sé gert með þeim hætti ofan á allt annað sem gengið hefur á. Það breytir ekki því að búið var að taka ákvörðun um að leggja í þetta ákveðið fjármagn og við þurfum auðvitað að vinna úr því og móta stefnuna. Síðan verður Bankasýslan að vinna eftir þeirri stefnu og að reyna að koma sparisjóðakerfinu á sem hluta af heildarfjármálastarfsemi þessa lands með það hlutverk sem sparisjóðirnir höfðu áður, sem var fyrst og fremst lánastarfsemi og þjónusta í heimahéraði í smærri mæli.

Það var þyngra en tárum tók að fylgjast með því hvernig menn fóru hamförum í því þegar verið var að sameina stofnanir eða þegar menn voru að leysa til sín smærri sparisjóði. Þá upphófst mikill harmleikur í kringum það að reyna að auka stofnfé til þess að halda stöðu minni sparisjóða í hlutdeildinni, m.a. í Sparisjóði Keflavíkur og hér hefur áður verið nefnt ástandið í Húnavatnssýslunum og í Bæjarhreppnum. Þar voru menn kallaðir til, beðnir um að auka stofnfé sitt og koma að málum, þeir tóku til þess lán. Þar voru loforðin upphaflega þau að veðið fyrir lánunum var eingöngu í stofnfénu. Síðan hefur verið gengið eftir því að menn tryggðu þessi lán með öðrum hætti, þ.e. að þeir greiddu þau, og talað var um að ganga að eignum fólks. Ég held að það sé afar mikilvægt að reynt sé að kveða upp úr um með hvaða hætti þetta var gert, ef rétt er að þarna hafi m.a. Sparisjóður Keflavíkur leitað til fólks, skorað á það að auka stofnfé og lofað því að þarna væri eingöngu stofnbréfin að veði. Þetta verður hreinlega að skýra fyrir dómstólum þannig að það komi í ljós ef þarna hefur verið um að ræða rangar upplýsingar.

Það er ein af afleiðingunum. Við sjáum hvernig Sparisjóður Mýrasýslu fór með heilan milljarð í stofnfjáraukningu með láni til einstaklinga í stofnfjáraukningu til að hjálpa ákveðnum fyrirtækjum sem síðan fóru öll á hausinn. Svo sjáum við hvernig fór í Húnavatnssýslunni og í Bæjarhreppnum, ég held að það séu 1,9 milljarðar á 130–140 einstaklingum, þar sem menn juku stofnfé í þeirri trú að þeir gætu alltaf skilað bréfunum inn aftur eða hætt við og að ábyrgðin væri eingöngu fólgin í bréfunum sjálfum. Síðan er gengið að þessum aðilum og þeir krafðir um greiðslur.

Þetta er auðvitað úrlausnarefni sem samfélagið verður að taka á, að fá upplýst með fullnægjandi hætti með hvaða hætti þessi loforð voru gefin og hvernig salan fór fram. Alla vega reynir mjög á þau úrræði sem menn hafa varðandi aðstoð við heimilin þannig að þarna verði ekki fleiri bú og býli í héraði gjaldþrota.

Auðvitað verður að gæta jafnræðissjónarmiða og fara með þetta með líkum hætti og annars staðar. Hlutabréf eru ekki endilega sama og stofnfé þótt gerðar hafi verið tilraunir til að láta það vera þannig. Þetta er því mjög vandmeðfarið mál en mikilvægt engu að síður.

Að lokum treysti ég á að þetta fari í vandaðan farveg og að menn reyni að vinna úr þessu. Þegar við ræddum um að endurstilla bankakerfið, að halda öllum þremur bönkunum gangandi af því að það eru kröfuhafar sem eiga þá, vissum við að þegar fjármálakerfið dregst saman, fer niður í þriðjung eða jafnvel minna af því sem það var upphaflega, hlýtur þjónustan í landinu og fjármálastarfsemin að dragast saman sem því nemur. Það verður því samdráttur í bankakerfinu og í sparisjóðakerfinu. Það er mikilvægt að unnið verði af heilindum að þeirri uppstokkun, það verður að eiga sér stað hagræðing. En það var auðvitað hugmyndin að hún kæmi á lengri tíma því að það væri ekki á það bætandi í því ástandi sem núna er að fara í allan þann niðurskurð og uppstokkun á einu bretti, það yrði síðan að finna farveg til lengri tíma í þeirri vinnu sem fram undan er.

Í lokin bið ég hæstv. ráðherra, og það er mjög mikilvægt, að skýra það betur hver kostnaðurinn verður hugsanlega sem fellur á ríkissjóð, því að það er mikilvægt að við höldum líka um hagsmuni ríkissjóðs í allri þessari endurreisn og fáum þær upplýsingar upp á borðið. Svo tek ég heilshugar undir það sem hæstv. ráðherra nefndi, og kemur raunar fram í rannsóknarskýrslunni, að það er mjög mikilvægt að menn skoði sparisjóðakerfið, en það var ekki undir í skýrslunni. Að menn skoði með hvaða hætti hlutirnir gerðust, hvað það var sem fór úrskeiðis þannig að menn geti átt eðlilegt uppgjör hvað þetta varðar, skýrt línur og reynt að skýra einmitt það sem ég var að segja áðan varðandi aðkomu einstaklinga að aukningu á stofnfé, hvaða loforð voru gefin og þess háttar. Ég treysti á að rannsóknarnefnd Alþingis taki þetta mál fyrir og finni því farveg í framhaldinu.