138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðakerfisins, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[16:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þann rúma tíma sem við fáum til þess að ræða um sparisjóðina hér.

Sparisjóðirnir hafa gegnt mjög veigamiklu hlutverki í íslensku fjármálalífi og hafa oft verið eina fjármálastofnunin í hinum dreifðari byggðum landsins. Þeir hafa notið mjög mikils velvilja hjá íslensku þjóðinni og hafa án undantekningar fengið hæstu einkunn hvað varðar þjónustu og ímynd. Ég tel að sparisjóðakerfið geti gegnt lykilhlutverki í endurreisn heiðarlegs og góðs fjármálakerfis í landinu. Til þess að það geti orðið þurfa björgun þeirra og endurreisn að byggjast á þeim grunngildum sem sparisjóðirnir voru byggðir á og tryggja að þeir starfi eftir dreifðri eignaraðild þar sem jafningjarétturinn ræður ferðinni.

Hér er ég aftur að vitna í orð hæstv. ráðherra, Jóns Bjarnasonar, þegar hann fjallaði á sínum tíma um sparisjóðina. Hvernig förum við að því? Ef við horfum aðeins til baka, til fortíðar, eiga sparisjóðirnir sér alllanga sögu hérlendis, a.m.k. ef við berum þá saman við önnur fjármálafyrirtæki. Það hefur oft verið talað um að fyrsti eiginlegi sparisjóðurinn hafi verið stofnaður á Seyðisfirði árið 1868, Sparisjóður Múlasýslna. Hann varð ekki langlífur og hætti starfsemi upp úr 1870. Reyndar hafa verið færð rök fyrir því að saga sparisjóða sé jafnvel eitthvað eldri og heimildir eru fyrir því að stofnaður hafi verið sparisjóður í Mývatnssveit árið 1858, sem lagður hafi verið niður árið 1864 og kallaður Sparisjóður búlausra í Skútustaðahreppi. Af því að dæma sem ég skoðaði þegar fjallað var um löggjöf sparisjóða var elsti sparisjóðurinn talinn vera Sparisjóður Siglufjarðar, stofnaður 1873. Þeir voru 63 árið 1960 en eftir bankahrunið fækkaði þeim í 12. Við yfirtöku FME fækkaði þeim síðan enn um einn þar sem Byr var endurstofnað sem hlutafélag en ekki sem sparisjóður.

Hrunið hafði sannarlega áhrif á sparisjóðina, eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fór í gegnum. En það voru aðeins tveir sjóðir sem sóttu ekki um að fá aðstoð frá ríkissjóði, það voru minnstu sjóðirnir.

Við höfum margoft sett lög hér á Alþingi um starfsemi sparisjóðanna og fyrstu slíku stjórnvaldsfyrirmæli okkar voru sett árið 1874, um hlunnindi nokkur fyrir sparisjóði á Íslandi. Ástæðan fyrir því að við erum hér saman komin er að FME tók yfir Sparisjóð Keflavíkur og Byr sparisjóð, þar höfðu fjölmargir sparisjóðir sem lágu á bak við verið sameinaðir. Báðir þessir sjóðir rekja hins vegar uppruna sinn til byrjunar síðustu aldar og störfuðu um 320 manns hjá þessum sjóðum víðs vegar um landið. Það voru þúsundir einstaklinga sem voru stofnfjáreigendur í þessum tveimur sjóðum og þeir hafa tapað miklum fjármunum, jafnvel þannig að heilt byggðarlag er undir, eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson minntist á varðandi Húnaþing vestra.

Ég tel mjög mikilvægt þegar við horfum á það hvernig við viljum byggja upp nýtt samfélag, hvernig við viljum endurreisa íslenskt samfélag, að við höfum þar ekki það sem ég vil gjarnan kalla „öfgamarkaðshyggju“. Að við leitumst við að byggja upp raunverulegt blandað hagkerfi, hagkerfi þar sem við erum með sterk og lifandi einkafyrirtæki, vel rekið ríkisvald og sterkan félagslegan eða almennan félagsgeira. Þann fjölbreytileika þarf fjármálamarkaðurinn að endurspegla.

Á vefsíðu Sparisjóðs Keflavíkur segir:

„Sparisjóðurinn er sjálfseignarstofnun sem hefur það að takmarki að veita viðskiptavinum sínum góða og örugga ávöxtun sparifjár og alhliða þjónustu á sviði fjármála.“

Fyrri ræðumenn hafa komið hérna og fjallað aðeins um skilgreininguna á því hvað það er að vera sparisjóður. Hvað er sparisjóður í raun og veru? Ég held að ef við förum í þá vinnu sem hv. þm. Guðbjartur Hannesson var að tala um, væri nauðsynlegt að skoða hvað fór úrskeiðis varðandi sparisjóðina, komi í ljós að við höfum alls ekki náð utan um það hvað sparisjóður er í raun og veru. Við hér á Íslandi höfum ekki náð utan um það hvað félagslegur eða almennur félagsgeiri eru, hvaða hlutverki þessi tegund af félögum á að gegna í blönduðu hagkerfi. Ísland er ekkert einsdæmi í þessu. Það má kannski rekja þessi fræði, sem tóku brátt yfir í hinum vestræna heimi, til Margrétar Thatcher og Ronalds Reagans. Þau töluðu mikið fyrir því að markaðurinn ætti að geta stjórnað sér sjálfur og það ætti helst að einkavæða allt.

Ég vil aðeins skilgreina og velta fyrir mér hvað sparisjóður er raunverulega. Sparisjóður byggir á annarri hugmyndafræði en hlutafélög og aðrir bankar. Hugmyndafræðin er sambærileg þeirri sem býr að baki í gagnkvæmum tryggingafélögum, samvinnufélögum, sjálfseignarstofnunum og jafnvel frjálsum félagasamtökum. „Eigendur“ eiga að vera þeir sem nota sér þjónustu fyrirtækisins og hagnaðurinn af starfseminni á að skila sér til þeirra í formi t.d. lægri þjónustugjalda, lægri vaxta, afsláttar af vöru eða í gegnum samfélagssjóði sem styðja við mann- og menningarlíf á starfssvæði félagsins. Grundvallarhugsunin í þessum félögum er lýðræði: Einn maður, eitt atkvæði, en ekki hversu mikla peninga maður á.

Joseph Stiglitz skrifaði heilmikla grein þegar hann var að fjalla um það að við þyrftum að fara frá því sem hann kallar „öfgamarkaðshyggju“. Talað er um að lýðræði sé virði í sjálfu sér, að lýðræði á vinnustöðum sé mikilvægur hluti af lýðræði almennt. Félög með þessa félagslegu hugsun eru t.d. minna líkleg til að misnota þá sem þau eiga samskipti við, starfsmenn, viðskiptavini og birgja, og hvetur það jafnvel til nýsköpunar í fyrirtækjum og í samfélaginu í heildina.

Það hefur hins vegar verið þannig hér á Íslandi, og ég mundi segja líka í stórum hluta hins vestræna heims ef við horfum á löggjöfina hjá Evrópusambandinu, að áróður gegn þessari tegund starfsemi hefur verið stöðugur, ekki bara í nokkur ár, þótt ég hafi minnst hér á Ronald Reagan og Margaret Thatcher, heldur áratugum saman. Þessi mikli og víðtæki áróður gegn rekstri almannafélaga, svo sem sparisjóða og gagnkvæmra félaga, leiddi til að lagalegt og rekstrarlegt umhverfi félaganna var allt fært til þess horfs að að lokum voru sparisjóðirnir nær allir einkavæddir með hörmulegum afleiðingum. Við könnumst öll við hugtakið „fé án hirðis“, það var innleitt sem skammaryrði. Það var á allan hátt neikvætt hugtak um eignir og fjármagn sem stóð að baki rekstri sem ekki var ætlað að skila beinum hagnaði í vasa einstakra eigenda sinna. Almannaeignarhald, opinbert eignarhald, gagnkvæm félög og samvinnufélög, þar með talin kaupfélög og sparisjóðir, voru þannig útmáluð sem úrelt form og fortíðarvandi. Við töpuðum okkur í því sem ég hef kallað öfgamarkaðshyggju og nýfrjálshyggju, ekki bara hér á landi, þótt þessar tegundir félaga hafi verið mjög veikar, heldur á heimsvísu.

Það sem ég hef miklar áhyggjur af er að við höfum raunar ekkert lært. Við höfum horft upp á það í frumvörpum sem komið hafa frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að unnið hefur verið að því að reyna að ýta þessum fyrirtækjaformum út úr löggjöfinni sem varðar fjármálamarkaðinn. Það hefur verið mikil barátta að halda uppi þessari umræðu, þrátt fyrir að ég telji að það sé örugglega hægt að finna ýmsar ályktanir frá Vinstri grænum um mikilvægi þess að byggja upp félagslega geirann eða almannafélagsgeirann hér á Íslandi.

Mig langar til þess að rifja aðeins upp hér í lokin nokkrar breytingartillögur sem ég lagði fram á lögunum um sparisjóði þegar þeim var breytt núna í sumar, þannig að við getum, þegar við förum að byggja upp sparisjóðina, raunverulega farið að svara því hvað sparisjóður er. Að við getum tryggt að sparisjóðurinn hafi þessi tengsl við heimabyggð sína sem við töluðum um að skipti svo miklu máli til þess að geta svarað því hvað sparisjóður er raunverulega. Þetta eru tillögur sem byggja á norsku löggjöfinni um sparisjóði. Stjórn sparisjóðanna ætti að vera skipuð þannig að stofnfjáreigendur mundu tilnefna tvo stjórnarmenn, hlutaðeigandi sveitarstjórnir eða héraðsnefndir mundu tilnefna tvo stjórnarmenn og innstæðueigendur einn stjórnarmann, samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins. Þar sem við horfum fram á að ríkið er eini stofnfjáreigandinn, t.d. í Sparisjóði Keflavíkur eins og staðan er núna, mundu þeir kjósa tvo stjórnarmenn. Síðan mundu þau sveitarfélög sem eru á starfssvæðinu kjósa tvo stjórnarmenn og síðan hefðu innstæðueigendur einhverja aðkomu að þessu. Ef við erum með stóran sjóð munu starfsmenn líka hafa tækifæri til þess að kjósa fulltrúa í stjórn sjóðsins og þar með værum við komin með raunverulega tengingu við samfélagið. Við mundum vonandi geta farið að byggja aftur upp traustið og tengslin sem þurfa að vera til staðar á milli sparisjóðs og viðskiptavinanna og samfélagsins sem þeir starfa í.

Ég tel líka að þegar farið verður í að endurskoða löggjöfina um sparisjóðina, (Forseti hringir.) af því við þurfum að skilgreina þetta mjög skýrt, þurfum við að ræða um rekstrarumhverfi sparisjóðanna. Við þurfum að fara í gegnum það hvernig við tryggjum þessi tengsl og hvort þessi (Forseti hringir.) tillaga gæti komið til greina, eins gagnsæi í reglum um það hvernig menn geta orðið stofnfjáreigendur eða hvernig þeir geta fengið (Forseti hringir.) aðkomu að þessu, og síðan hvernig við viljum stjórna sjóðunum og (Forseti hringir.) stýra atkvæðisvægi sparisjóðanna.