138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðakerfisins, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[16:23]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tek undir þau orð með hv. síðasta ræðumanni að það er mikilvægt að við getum átt í skoðanaskiptum um málefni sparisjóðanna. Ég verð að segja að út frá þeim hugleiðingum sem hv. þingmaður var með, um hinn hugmyndafræðilega pólitíska þátt þessa máls hvað varðar sparisjóðina sem fyrirbæri, deili ég að miklu leyti skoðunum með hv. þm. Eygló Harðardóttur. Ég hefði nú eiginlega óskað þess að hún hefði verið komin á þing svona 10 árum fyrr fyrir Framsóknarflokkinn og verið þar til staðar með sín sjónarmið þegar Framsóknarflokkurinn var nokkuð að véla um þessi mál og átti t.d. viðskiptaráðherrann á löngum stundum. En ég er algerlega sammála hv. þingmanni, það er mjög mikilvægt að menn ræði og átti sig á hvers konar framtíðarform og fyrirkomulag menn eru þá að tala um þegar verið er að ræða endurreisn eða björgunaraðgerðir í þágu sparisjóða.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hélt hér góða ræðu og ég get gert allt sem hann sagði um þessar aðgerðir að mínum orðum og þarf ekki að endurtaka það. Ég vil fyrst og fremst koma lítillega að því sem hefur snúið að fjármálaráðuneytinu í þessu ferli og staldra við sumardaginn fyrsta sem var kannski ekki nákvæmlega eins og sumardagurinn fyrsti má gjarnan vera þar sem menn geta glaðst í góðu veðri með fjölskyldu sinni, a.m.k. ekki af minni hálfu. En þannig fór það bara að því miður komust á endastöð tilraunir bæði Sparisjóðsins í Keflavík og Byrs sparisjóðs til að ná samkomulagi við sína lánardrottna eða kröfuhafa sem staðið höfðu linnulítið undanfarna mánuði og missiri.

Rétt er að hafa í huga og leggja á það áherslu að þetta voru viðræður á vegum sparisjóðanna sjálfra á þeirra forræði, sem þeir stýrðu, með þeirri aðkomu ríkisvaldsins að þeim stóð til boða það stofnfjárframlag á grundvelli neyðarlaganna sem strax var ákveðið að sparisjóðum stæði til boða, og að því tilskyldu að sjálfsögðu að hin fjárhagslega endurskipulagning þeirra gengi þannig eftir að hún uppfyllti þær kröfur sem Fjármálaeftirlitið gerði um fjárhagslegan styrk og stöðu.

Ég hafna því alveg að skort hafi upp á vilja ríkisvaldsins í þessum efnum. Þvert á móti væru menn að sjálfsögðu ekki af einhverju áhugaleysi að gera ráð fyrir því að leggja jafnmikla opinbera fjármuni í það að endurskipuleggja sparisjóðakerfið og raun ber vitni ef mönnum væri ekki með það full alvara. Við skulum átta okkur á því að hér er verið að tala um umtalsverðar fjárhæðir, eða 22–24 milljarða kr. í allt, ef það gengur eftir að það takist að ljúka endurskipulagningunni með þátttöku ríkisins upp á þær stærðir.

Fjármálaeftirlitið hefur að sjálfsögðu sett sínar kröfur um nauðsynlegan fjárhagslegan styrk. Það er út af fyrir sig rétt að eftir því sem nánari úttekt á stöðu einstakra sparisjóða hefur undið fram, hefur þróunin því miður gjarnan orðið sú að Fjármálaeftirlitið hefur gert ríkari kröfur en upphaflega var talið að mundu nægja og það hefur haft áhrif á þetta ferli. En það hefur allan tímann legið fyrir að það væri grunnforsenda þess að fjárhagsleg endurskipulagning gengi á þeim forsendum að menn næðu að henni lokinni að uppfylla kröfur um eigið fé og fjárhagslegan styrk, nægjanlegan aðgang að lausafé og annað í þeim dúr. Þetta tókst því miður ekki í tilviki Sparisjóðs Keflavíkur og Byrs og þeir kusu því að skila inn starfsleyfum sínum á fimmtudaginn var. Þá voru stofnuð ný fjármálafyrirtæki og þar kemur fjármálaráðuneytið að til að tryggja að þau séu til staðar til að taka við innlánum og eignum og reyna að sjá til þess að aðgerðin gangi sem hnökralausast fyrir sig. Það tel ég að það hafi gert, satt best að segja mjög vel, og eiga allir þeir sem lögðu hönd á plóginn og urðu að leggja hart að sér á einum sólarhring, þakkir skildar fyrir.

Ráðningarsamningar starfsfólks annarra en æðstu yfirmanna færðust sjálfkrafa yfir til hinna nýju fjármálastofnana og þannig tókst að tryggja að þetta gerðist með lágmarksröskun, bæði gagnvart starfsmönnum og auðvitað viðskiptavinum fjármálafyrirtækjanna sem komu að þeim opnum daginn eftir.

Um hremmingar sparisjóðanna almennt mætti hafa mörg orð og þá dapurlegu staðreynd hvernig þeir drógust inn í tíðarandann og viðskiptahætti sem fóru svo að lokum illa með þá. Auðvitað verður að halda því til haga að veldur nokkuð hver á heldur. Í gegnum allan þennan ólgusjó sigldu þó þrátt fyrir allt nokkrir sparisjóðir og komust í gegnum hann nokkuð vel og tveir eða reyndar þrír má segja sem ekki hafa þurft á sérstöku framlagi ríkissjóðsins að halda. En aðrir eru ýmist komnir í þrot eða þurfa á umtalsverðri fjárhagslegri endurskipulagningu að halda og hún er í gangi gagnvart átta minni sparisjóðum sem Seðlabankinn vinnur sérstaklega úr sökum þess að hin fjárhagslega endurskipulagning þeirra gerist í gegnum meðferð krafna ríkisins eða Seðlabankans á sparisjóðunum. Þær eru notaðar ýmist til að mynda nýtt stofnfé og/eða afskrifa þær að hluta til og í tilviki nokkurra sparisjóða er veittur afsláttur á þeim gegn staðgreiðslu, þannig að það kemur þeim stofnunum til góða.

Þannig lítur dæmið út að að meðtöldum Sparisjóði Keflavíkur hinum nýja og þeim átta sem Seðlabankinn hefur haft til úrvinnslu, eru tveir í viðbót sjálfstætt starfandi sparisjóðir sem eru dótturfélag Arion banka, áður Kaupþings, og fylgdu þar með Sparisjóði Mýrasýslu á sínum tíma, en af hálfu stjórnvalda hefur verið lögð á það áhersla að þeim sparisjóðum verði haldið sjálfstæðum og þeir verði í framtíðarlandslaginu hluti af sparisjóðakeðjunni, þannig að vonandi verða hér a.m.k. 11 lífvænlegir sparisjóðir starfandi á næstunni nema innbyrðis sameiningar komi til sem auðvitað getur vel orðið.

Það er að sjálfsögðu ákaflega sorglegt að sjá hvernig stofnfjáreigendur og þeir sem tóku þátt í stofnfjáraukningu eða hlutabréfaaukningu þeirra sparisjóða sem orðnir voru hlutafélög, sitja eftir með sárt ennið. Er það með dapurlegri dæmum sem þetta bankahrun skilur eftir sig sem þar getur að líta í einstökum byggðarlögum.

Næst gerist það að eignarhlutur ríkisins verður færður samkvæmt lögunum til Bankasýslu ríkisins og hún fer með hann og hefur það hlutverk að vinna úr þeim málum að móta tillögur til stjórnvalda um framtíðarfyrirkomulag og eftir atvikum svo í fyllingu tímans tillögur um sölu stofnfjárhluta eða ráðstöfun þeirra að öðru leyti. Það er alveg ljóst, og ég tek undir það sem efnahags- og viðskiptaráðherra og reyndar fleiri hafa sagt hér, að það þarf að eiga sér stað umtalsverð hagræðing í þessu kerfi. Það er rétt að menn hafi í huga hversu miklu, miklu minna sparisjóðakerfi við erum þá að endurreisa en það sem var þegar mest var umfangs og munar þar auðvitað miklu um að bæði SPRON og nú Sparisjóðurinn Byr eru horfnir af vettvangi sem slíkir. Þá kemur líka að því að móta þarf aðferðafræðina gagnvart því hvernig sparisjóðunum verður í framtíðinni tryggt sitt bakland.

Í tilviki minni sparisjóðanna mun standa eftir lítils háttar stofnfjáreign, mismikil þó, þannig að þar verður til staðar, þó í litlum mæli sé miðað við hlutfallslega eign, eitthvert stofnfjáreigendabakland, þannig að forkaupsréttur í því tilviki getur nýst til þess að færa umfangið aftur yfir til heimamanna. Væntanlega er líklegast að farin verði einhver blönduð leið forkaupsréttar þeirra stofnfjáreigenda sem fyrir eru og nýrra aðila sem vilja bætast í bakland sjóðanna.

Í tilviki hins nýja sparisjóðs í Keflavík er þessu vissulega ekki til að dreifa þar sem ríkið stofnar hann eitt og verður eini stofnfjáreigandinn og þá þarf að hugsa nýjar aðferðir til að hið sama geti engu að síður gerst, því að sjálfsögðu verða sparisjóðirnir ekki sparisjóðir nema þeir eigi sér sitt bakland í viðkomandi byggðarlögum og sína bakhjarla í breiðum hópi stofnfjáreigenda. Æskilegast er að sjálfsögðu að það sé á þeim grunni sem upphaflega var til stofnað að þar sé um að ræða fjölmennan breiðan hóp með tiltölulega litla eign hjá hverjum og einum.

Auðvitað voru það mikil vonbrigði að eftir alla þá vinnu og allan þann kostnað og allan þann tíma sem búið var að leggja í að reyna að ná samningum við kröfuhafa stóru sparisjóðanna tveggja sem eftir stóðu, og voru í þeirri miklu sérstöðu að í kröfuhafahópi þeirra voru stórir erlendir aðilar öfugt við minni sparisjóðina þar sem eingöngu var innlendum aðilum til að dreifa, að þetta skyldi fara eins og það fór. En óvissunni er a.m.k. eytt og hægt að leggja af stað í næsta áfanga verksins og vonandi fer nú dögum eða sólarhringum af því tagi sem fimmtudagurinn síðasti var að linna.

Það er enginn bilbugur á þeim sem hér stendur hvað það varðar að það er æskilegt að sparisjóðir sem eru eiginlegir sparisjóðir verði hluti af framtíðarlandslagi í okkar fjármálaþjónustu, ekki bara vegna þess mikilvægis sem þeir hafa landfræðilega á þeim svæðum þar sem þeir eru í stórum stíl einu fjármálastofnanirnar, heldur líka vegna þess að það er hollt að fjármálakerfi okkar samanstandi af fjölbreyttari stofnunum en kannski einum banka í eigu ríkisins og einum eða tveimur einkabönkum.