138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

fjárhagsleg endurskipulagning sparisjóðakerfisins, munnleg skýrsla efnahags- og viðskiptaráðherra.

[16:58]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér sparisjóðina og örlagasögu þeirra. Eins og heyra mátti á máli hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra er með eindæmum hvernig farið var með sparisjóðina og sparisjóðakerfið. Ég hygg að það hljóti að vera einsdæmi í heimssögunni að 90% af einstöku fjármálakerfi hafi farið á hausinn. Við skulum ekki gleyma því að sparisjóðakerfið var fórnarlamb þeirrar græðgisvæðingar og þeirrar hugmyndafræði sem ákveðinn stjórnmálaflokkur stóð hér fyrir lengi og beitti sér fyrir nánast á hverjum degi, eins og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði, það var reynt að eyðileggja það meira og meira.

Lýsingar hæstv. ráðherra á falli þessara stofnana virtust mér einfaldlega lýsingar á einhvers konar stórfelldri svikamyllu. Það er dapurlegt að þetta skuli hafa vaðið uppi, en hvað höfum við í staðinn? Við vitum hvaðan við komum í þessu máli, en hvert ætlum við að fara? Ég sé ekki betur en að það vanti enn þá, því miður, heildarstefnumótun af hálfu ríkisstjórnarinnar til framtíðar hvað varðar fjármálakerfið í heild og einstaka þætti og einstakar tegundir fjármálafyrirtækja.

Hér er verið að leysa til sín sparisjóði og reyna að bjarga þeim eftir bestu getu, sparisjóð fyrir sparisjóð. Við erum aftur á móti búin að endurreisa bankakerfið í sinni gömlu mynd. Við sitjum uppi með bankakerfi sem er í rauninni allt of stórt fyrir þarfir þjóðarinnar. Við sitjum uppi með bankakerfi þar sem fjárfestingarbankar og viðskiptabankar eru í sömu stofnuninni. Ég hef starfað í fjárfestingarbanka og fjárfestingarbankastarfsemi er algjörlega óskyld viðskiptabankastarfsemi. Það má tala um þetta sem tvö algjörlega aðskilin fyrirtæki í rauninni. Fjárfestingarbankastarfsemi er allt annars eðlis. Ég skil ekki hvernig stendur á því að ríkisstjórnin skuli endurreisa þetta kerfi með sama fyrirkomulagi og var. Áratugum saman var t.d. bannað í Bandaríkjunum að hafa fjárfestingarbanka og viðskiptabanka undir sama þaki. Í nýframkomnu frumvarpi efnahags- og viðskiptaráðherra, sem nú er í viðskiptanefnd og snýr að endurskipulagningu fjármálafyrirtækja, er ekki verið að skilja á milli fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi.

Ég hef ekki séð hver hefur ákveðið þetta og hvar það hefur verið ákveðið. Ég lýsi eftir svari við því hver ákvað þetta. Var það ríkisstjórnin? Var það efnahags- og viðskiptaráðherra? Var það Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn? Þetta er svolítið mikið grundvallaratriði hvað varðar framtíð íslenska fjármálakerfisins, ekki síst vegna þess að viðskiptabankar eru með innstæðutryggingar og þegar við höfum viðskiptabanka og fjárfestingarbanka undir sama þaki býr fjárfestingarbankastarfsemin við það skjól að það er í rauninni de facto ríkisábyrgð á innstæðum innstæðueigenda í fjárfestingarbankanum. Það að það skuli vera ríkisábyrgð, bein eða óbein, á fjárfestingarbankastarfsemi er ekki bara óæskilegt, það er fráleitt og það hlýtur að koma til ítarlegrar skoðunar hvernig hægt er að koma þessu fyrir með öðrum hætti.

Nú hefur því margoft verið lýst yfir að endurreist bankakerfi er með ríkisábyrgð á öllum innstæðum. Hvað á það að vera svoleiðis lengi? Hvað á fjárfestingarbankastarfsemi á Íslandi að vera með ríkisábyrgð lengi? Á hún að vera svoleiðis til frambúðar? Hún verður það til frambúðar svo lengi sem þetta tvennt er undir sama þaki.

Við höfum líka fjallað um eftirlitið sem á að vera með þessum stofnunum. Við vitum að Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn brugðust algjörlega í aðdraganda hrunsins. Það breytir því ekki að enn þá er til staðar allt sama starfsfólkið, nema æðstu stjórnendur þessara stofnana, í sínum gömlu störfum við það að endurreisa sama hrófatildrið, að mér virðist, að einhverju leyti úr gömlu fúaspýtunum. Það hefur sýnt sig að eftirávirkt eftirlit virkar ekki.

Ég starfaði við hliðina á mönnum í fjárfestingarbanka í New York sem vissu að þeir ættu yfir höfði sér 30 ára fangelsi ef það kæmist upp um það sem þeir væru að gera. Þeir víluðu engu að síður ekki fyrir sér að fara út í það og við sjáum af fjölmörgum dómsmálum frá Bandaríkjunum að eftirávirkt eftirlit, þó að það séu þungar refsingar við brotunum, virkar ekki. Það þarf að koma í veg fyrir glæpina og svindlið fyrir fram. Það þarf að gera það með afgerandi hætti. Sú sorgarsaga sem við búum við lýsir sér kannski best í Húnaþingi vestra. Það er nokkuð sem má ekki endurtaka sig og þarf ekki að endurtaka sig (Forseti hringir.) ef menn hugsa svolítið vel út í það sem þeir eru að fara að gera.