138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:28]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þær spurningar sem hann velti hér upp varðandi framkvæmd laga um strandveiðar.

Fyrsta spurning hv. þingmanns var hvað væri fyrirhugað með skiptingu í svæði. Ég legg áherslu á að hluti af tilganginum með því er að þetta geti dreifst á landið allt þannig að einstök byggðarlög eða einstakir landshlutar eigi ekki á hættu að búið verði að veiða upp allan hlutann, við skulum segja af því að fiskurinn kemur fyrst upp að suðvesturströndinni að þá væri kannski búið að veiða stóran hluta af því magni sem ætlað er til þessara veiða þar. Þess vegna er það hluti af markmiðinu með þessum lögum að þetta geti dreifst á landið allt en þó innan svæðaskiptingar sem getur raunverulega gengið upp.

Hitt vil ég líka benda á að gerð var tilraun í fyrra sem jafnframt var fylgt eftir með úttekt og síðan skýrslu af hálfu Háskólaseturs Vestfjarða á Ísafirði, sem ég held að sé líka einstakt í þessum störfum að slíkt skuli hafa verið gert. Sú skýrsla kom fram, þar var bent á kosti og á ýmislegt sem betur mætti fara en hún var samt mjög góð miðað við þann skamma tíma sem þar var tekinn. Og ég get sagt það hér, frú forseti, að hugur minn stendur til þess að strandveiðunum verði áfram fylgt eftir (Forseti hringir.) með þeim hætti að þetta verði tekið reglulega út og fylgst með (Forseti hringir.) hvernig þessir þættir þróast, bæði veiðarnar og samfélögin, eins og hv. þingmaður minntist á.