138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það eru ákveðin atriði sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom inn á. Í fyrsta lagi lýsti ég því yfir í fyrrasumar, um þessi 6 þús. tonn sem ætlað er til þessa afla á þessu ári, þegar ákveðið var aflamark fyrir þá komandi fiskveiðiár og hvernig því yrði skipt, að það sem yrði selt til strandveiða kæmi ofan á fyrir þetta ár. Í ár er því ekki verið að taka af neinu úthlutuðu aflamarki í sjálfu sér bara svo það sé alveg ljóst. Jafnframt er ljóst að þegar verið er að meta heildarveiðimagn sem við ætlum að úthluta er það hluti af því magni en í ár er þetta svona og hefur engin áhrif á útgefið aflamark til annarra á þessu ári.

Hitt er svo líka rétt, að huga að því að þessar veiðar eru hugsaðar, eins og skýrt hefur komið fram í umræðunni, fyrir þá sem uppfylla ákveðin skilyrði og vilja fara í þessar veiðar undir þessum þröngt skilgreindu mörkum sem gerð eru um lengd veiðiferðar, heimilisfesti, fjölda rúlla, ákveðið magn sem má koma að landi úr hverri veiðiferð og um fjölda daga og vikna. Þetta er mjög skilgreint þannig. Þeir sem vilja fjárfesta í bát eða eitthvað þess háttar vita nákvæmlega að hverju þeir ganga.

Við verðum líka að hafa í huga að þarna er líka t.d. komið til móts við ákveðin mannréttindi og það að við höfum fengið (Forseti hringir.) álit frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna um hversu lokað kerfið væri þannig að það er ýmislegt sem þetta kerfi kemur til móts við. (Forseti hringir.) Mér finnst það bara mjög gott sem við leggjum hérna til.