138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[17:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að ráðherrann sé ekki að leggja fram eitthvað sem honum finnst vont. Ég ætlast ekki til þess. Það væri mjög undarlegt og ég gerði mér grein fyrir því að ráðherranum þætti þetta gott. (Sjúvrh.: … Skagfirðingum.) Fyrst þú nefnir þetta, ágætt að ráðherrann nefndi hér Skagfirðinga, er hlutdeild fiskvinnslunnar í Skagafirði líklega tveggja vikna vinna í þessum 6 þús. tonnum. 70–80 manns fá því ekki atvinnu af þeim hluta, hæstv. ráðherra.

Ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt segir hann: Í ár bætast við 6 þús. tonn ofan á þær aflaheimildir sem var ákveðið að úthluta í ár. Þá spyr ég: Hvað gerist á næsta ári? Verða þessi 6 þús. tonn, sem maður veit ekkert hvað verða mikil, aukin hugsanlega eða þeim fækkað? Verða þau tekin af heildarmagninu á næsta ári ef það er ekki gert núna?

Önnur spurning: Fyrst hæstv. ráðherra taldi sig geta bætt við 6 þús. tonnum í þetta kerfi, sem ég kalla svo, telur hann þá unnt að bæta við öðrum 6 þús. tonnum inn í hitt kerfið þar sem ljóst er að hvort tveggja rúmast innan þeirra upplýsinga sem Hafró vinnur með?

Þetta eru spurningarnar sem ég óska eftir að ráðherra svari.