138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Fyrst vil ég segja við hæstv. ráðherra að það er rétt að Framsóknarflokkurinn stóð dyggilega við þetta fiskveiðistjórnarkerfi sem hefur verið við lýði en ég minni hæstv. utanríkisráðherra á hans ágæta þátt í því og hans flokks, fyrrum flokks líklega, við að koma á frjálsu framsali sem var ef ég man rétt eitt af verkum ríkisstjórnar vinstri flokkanna.

Varðandi það hvaðan ég hef þær skoðanir mínar að hægt sé að auka við aflaheimildirnar þá kemur fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunar — ég verð að viðurkenna að hæstv. ráðherra sáði örlitlum efasemdakornum hjá mér um að ég hefði lesið vitlaust en með fyrirvara um að ég hafi lesið skýrsluna rétt — að núna sé hægt að auka aflaheimildir um a.m.k. 30.000 tonn á ári án þess að skerða hrygningarstofn og veiðistofn. Þá byggjum við á því langtímasjónarmiði að byggja stofninn hægt upp sem að sjálfsögðu er verið að gera.

Það þýðir vitanlega, hæstv. ráðherra og frú forseti, að stofninn mun byggjast hægar upp. Ég man ekki alveg tölurnar en í staðinn fyrir að það séu 762.000 tonn, eitthvað svoleiðis, séu það í kringum 710.000 eða 715.000 tonn. En það er svigrúm, virðulegi forseti, og ég hvet hæstv. ráðherra til að fara einfaldlega ofan í þessa skýrslu og þá leiðrétta mig ef ég fer með rangt mál.