138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög málefnalegt svar. Ég óskaði eftir því að hv. þingmaður segði mér á hvaða palli hann stendur þegar hann leggur fram hugmyndir af þessu tagi. Ég er ekkert fráhverfur þeim. Það er fullkomlega eðlilegt hjá þjóð í kreppu að hún velti fyrir sér hvort hún eigi að ganga á þá innstæðu sem er í banka hafsins. Það er það sem fjölskyldur í landinu gera þegar þær lenda í kreppunni núna, þær ganga á það sem þær eiga. Það er alveg hægt að færa rök fyrir því að það sé réttlætanlegt að ganga á þá innstæðu. Menn hafa hins vegar ekki hingað til viljað leggja inn á þann veg, menn hafa fremur tekið þá afstöðu að vilja þrátt fyrir kreppuna sýna ábyrgð og reyna að byggja upp stofninn.

Sú var tíðin að ég þekkti skýrslur Hafrós nánast eins og Biblíuna sem ég les miklu oftar en hv. þingmann grunar. [Háreysti í þingsal.] Eigi að síður treysti ég mér ekki til að taka undir að þetta sé rétt túlkun hjá hv. þingmanni en ég kann að hafa rangt fyrir mér. Ég held að ekki sé hægt að lesa það út úr skýrslu Hafrós að hægt sé að taka 30.000 tonn og deila út til veiða án þess að skertir séu möguleikar til áframhaldandi vaxtar. Ég tel hins vegar alveg fullkomlega málefnalegt sjónarmið hjá hv. þingmanni að ef það mundi leiða til núllstöðu er það alveg þess virði að skoða það. Það vildi ég segja.

Mig langar undir lokin að þjóna eðli mínu og stríða hv. þingmanni pínulítið. Ástæðan fyrir því að ég óskaði eftir því að fá að skyggnast inn í hugarheim hans um hin vísindalegu rök er sú að þingmenn Framsóknarflokksins gagnrýndu það í umræðu um annað frumvarp, sem tengdist annarri tegund sem hefur miklu breiðari kjaft en við báðir þingmenn sem hér erum að tala saman, þ.e. skötuselurinn, að vísindaleg rök vantaði. (Forseti hringir.) Í öllu falli sýnist mér við geta verið sammála um að við mundum ekki sammælast um að auka aflaheimildir (Forseti hringir.) nema fyrir því væru vísindaleg rök.