138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:37]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vil ég geta þess að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd vinnur mjög vel að mínu mati. Það á líka við um þetta mál þannig að þó að óþolinmæði sé í mér og öðrum sem vilja komast á strandveiðarnar — ég ætla kannski ekki að fara sjálfur á strandveiðar en ég veit af þessari óþolinmæði — þá vil ég taka skýrt fram að af samskiptum mínum við hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd er þar vel unnið og enginn undanskilinn í þeim efnum.

Ég legg áherslu á, nú þegar ég vona að strandveiðarnar fari í gang, að ég er ekki sammála hv. þingmanni með svæðaskiptinguna. Ég tel það hafa komið fram í skýrslunni sem við styðjumst við að svæðaskiptingin hafi verið talin mjög nauðsynleg hver svo sem hún verður nákvæmlega (Forseti hringir.) og á því er byggt. Ég hef fullan hug á, (Forseti hringir.) þar sem Háskólasetur Vestfjarða fylgir þessu máli eftir, frú forseti, (Forseti hringir.) að þetta sé gott mál.