138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:42]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki neinn nýr tónn í þessu af minni hálfu. Ég gagnrýndi málið á efnislegum forsendum á síðasta þingi, m.a. svæðaskiptinguna og að taka ætti byggðakvótann að hálfu inn í strandveiðarnar. Sem betur fer bakkaði hæstv. ráðherra með það síðara en heldur sig því miður enn við þessa vitlausu hugmynd um svæðaskiptinguna.

Hv. þingmaður sagði að ég og minn flokkur hefðum borið ábyrgð á því að þetta mál hefði tafist. Málið tafðist vegna þess að það kom vanreifað, illa undirbúið og óhugsað inn í þingið og við vorum að reyna að lagfæra það sem þurfti að lagfæra í þessum efnum. Ýmsir hagsmunaaðilar voru kallaðir fyrir, mjög margir höfðu gríðarlega mikið við þetta mál að athuga og mjög margt af því sem þeir sögðu hefur komið á daginn.

Það segir kannski einhverja sögu að meiri hluti nefndarinnar skuli telja ástæðu til að segja hæstv. ráðherra að hann skuli fylgjast með framkvæmdinni. Gefur ekki augaleið að ráðherra sem er í þeirri stöðu að vera ábyrgðarmaður máls — sett eru lög og síðan vinna menn samkvæmt lögunum — að hæstv. ráðherra hljóti óumbeðið að fylgjast með framkvæmdinni?

Ég hef ekki heyrt nein rök gegn því sem ég hef verið að segja sem er að svæðaskiptingin byggi á úthlutun á byggðakvóta og byggðakvótinn komi þessu máli ekki lengur nokkurn skapaðan hlut við. Það mátti segja í fyrra, þegar að hálfu var tekið tillit til úthlutunar við byggðakvóta, að þar væru einhver tengsl á milli sem mætti taka tillit til en þau eru ekki lengur. Þess vegna ættu menn að sjá að reynslan sýndi okkur í fyrra að það er fullkomlega galið að byggja þetta á gamalli úthlutun á byggðakvótum. Það væri að minnsta kosti eðlilegt að nota þetta ár sem einhvers konar tilraunaár rétt eins og síðasta ár til að átta sig á því hver hin raunverulega viðmiðun verður.