138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:47]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er eindregið fylgjandi strandveiðum. Sumir þeirra sem hafa talað gegn þeim, jafnvel af semingi þó, gera það vegna þess að þeim finnst ákveðið ranglæti fólgið í þeim því að með þeim sé tekið af hlut annarra. Það er alveg hægt að færa rök fyrir þeirri skoðun. Réttlætið í strandveiðunum felst hins vegar í því að það stjórnkerfi fiskveiða sem við búum við hefur skuggahliðar sem hafa leitt til margra dæma um að lífsbjörgin hafi nánast verið keypt eða flutt úr viðkomandi byggðarlagi. Réttlætið í strandveiðunum felst í því að það er verið að byggja undir atvinnu í litlum byggðarlögum sem hafa átt í erfiðleikum. Mér finnst að menn þurfi líka að horfa til þess.

Ég er síðan alveg sammála túlkun hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar á því sem birtist í síðustu skýrslu Hafrós og síðustu upplýsingum sem hafa komið þaðan. Ég held að þar sé ekkert að finna sem bendir til þess með vísindalegum rökum að hægt sé að auka aflaheimildir verulega. Ef menn vilja freista gæfunnar kann að vera hægt að fara eitthvað svolítið fram úr. Það er ekki einu sinni svo að okkur hafi tekist að halda okkur við það sem við ætluðum að veiða í fyrra. Mig minnir að hv. þingmaður hafi sagt að 150.000 tonn af þorski hefðu verið tekin en á síðasta almanaksári tóku menn 180.000 tonn og við skulum sjá hvernig það endar á þessu ári.

Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að við séum stödd í dálitlu millibilsástandi með þorskstofninn sem er nokkuð háskalegt. Við erum ekki alveg búin að sjá hvaða áhrif hlýnun sjávar hefur á stofninn en ég vek athygli á því að þó að árgangar sem fram hafi komið hafi verið giska sterkir verða þeir endasleppir þegar þeir eldast. Það er reynsla undanfarinna ára og ég óttast að það sé út af hlýnun sjávar. Ég óttast líka að við kunnum að horfa fram á töluvert verri nýliðun (Forseti hringir.) miðað við þær reglur og röksemdir sem vísindamenn hafa byggt á gögnum sínum.