138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Með sömu fyrirvörum og hv. þingmaður sló við þeim upplýsingum sem hafa til þessa komið fram hjá Hafró er ég sammála honum. Ég held að eitt af því góða sem okkur hefur lánast á síðustu árum sé að láta ekki freistast til að ganga á auðlindabankann í hafinu þrátt fyrir að staðan sé erfið í samfélaginu nú um stundir. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég held að ýmislegt bendi til þess að okkur muni ganga hægar að byggja upp stofninn en við ætluðum og það er út af breytingum á hitastigi í hafinu. Það er mín skoðun. Þá dreg ég þá ályktun að það væri rangt að segja að mér hefði undir ræðu hv. þingmanns fundist hann telja mögulegt að auka aflaheimildir. Mér fannst það í fyrri ræðu hv. þingmanns, ég sé það á andsvari hans að svo er sennilega ekki, en ef ég misskil hv. þingmann þætti mér vænt um að hann leiðrétti það. Það er þó a.m.k. komið fram að við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson (Forseti hringir.) erum ósammála formanni þingflokks Framsóknarflokksins um (Forseti hringir.) að fyrirliggjandi upplýsingar gefi tilefni til 30.000 tonna aukningar.