138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hvorki í andsvarinu né ræðunni hafi ég neitt fjallað um þessa 30.000 tonna aukningu þannig að ég vil út af fyrir sig biðja menn að túlka það ekki þannig. Ég sagði einfaldlega að miðað við þær forsendur sem Hafró hefði lagt fram í fréttatilkynningu 16. apríl sæi ég ekki í þeim kortum að það væri líklegt að stofnunin legði til aukningu sem a.m.k. nokkru máli skipti. Þegar maður tekur síðan tillit til þess að gert er ráð fyrir því í þeirri lagasetningu sem hér er fjallað um að 5.000 tonn af þorski, eða þar um bil, verði dregin frá til að setja í strandveiðipottinn áður en kvóta verður úthlutað til krókaaflamarksbáta, þ.e. smábátanna, og aflamarksskipanna eru allar líkur á því að við sjáum frekar kvótaminnkun hjá þessum flota en kvótaaukningu. Það er það sem ég dró fram.

Hins vegar er mjög margt jákvætt að gerast í sambandi við þorskinn, t.d. er mikill vöxtur í stærri fiskinum. Það getur út af fyrir sig gefið okkur jákvæðar vísbendingar vegna þess að við vitum að stærri fiskurinn er líklegri til að geta af sér lífvænlegri seiði en sá smærri.