138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[18:54]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Allt frá því að við settum á laggirnar það fiskveiðistjórnarkerfi sem við vinnum í megindráttum eftir í dag, svokallað kvótakerfi, árið 1984 hefur markmiðið verið ljóst. Markmiðið hefur snúið að því að auka sem mest hagkvæmni í sjávarútvegi og skapa sem mesta arðsemi greinarinnar. Á árunum áður en kvótakerfið kom á höfðum við verið með viðvarandi taprekstur í sjávarútvegi, í raun mjög slæm ár, og á sama tíma gengið allverulega á okkar helstu nytjastofna með þeim afleiðingum að með áframhaldandi sömu stefnu hefði stefnt í mikið óefni.

Afleiðingarnar af þessari stefnu liggja víða, kannski fyrst og fremst í því að við ákváðum að fara að mestu leyti leið markaðarins í því að efla hagkvæmnina og auka arðsemina í stað þess að byggja kvótakerfið og fiskveiðistjórnarkerfi okkar upp sem félagslegt kerfi. Til dæmis má nefna að árið 1991, held ég að það hafi verið, voru um 2.550 skip að veiða við Íslandsstrendur. Flotinn okkar í dag er einhvers staðar í kringum 1.150 skip. Skipum hefur fækkað gríðarlega sem og sjómönnum og með aukinni tækni og nýjungum í vinnslu hefur fiskverkunarfólki fækkað mikið. Þetta hefur í sjálfu sér félagslegar afleiðingar fyrir byggðir landsins. Oft hefur kvótakerfinu verið kennt um þá byggðaröskun sem hefur orðið en hún er auðvitað afleiðing þess að mörkuð var sú stefna að láta greinina skila sem mestri arðsemi, mynda sem mestan hagnað í greininni, og með því höfum við náð að byggja upp einhvern hagkvæmasta sjávarútveg í heimi. Um það er ekki deilt. Þær þjóðir sem við berum okkur gjarnan saman við, getum nefnt t.d. Evrópusambandsþjóðirnar, veiða margfalt minni afla með margfalt fleiri skipum og margfalt fleiri sjómönnum. Þær þjóðir eru margar hverjar sáttar við að hafa þetta sem félagslegt kerfi og greiða sjávarútveg sinn niður með gríðarlegum framlögum á hverju ári. Það er ekki ólíklegt að ef við værum í sama farvegi og margar þær þjóðir værum við að borga með okkar sjávarútvegi á annað hundrað milljarða á ári í stað þess að hafa alla þá þjóðhagslegu arðsemi sem er af þessari mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar.

Strandveiðarnar eru skref í þá átt að auka á óhagkvæmni greinarinnar í heild sinni og um það er ekki hægt að deila heldur. Þar er tekinn ákveðinn hluti af þeim afla sem við tökum úr þessari auðlind okkar og þeim fjölgað sem hann veiða. Við aukum tilkostnaðinn, stuðlum að því að hráefni getur aldrei orðið eins gott á þessum bátum og á þeim flota sem stundar þessar veiðar allt árið þannig að afleiðingarnar eru að þessu leyti neikvæðar fyrir þjóðarbúið. Það getur vel verið réttlætanlegt í hugum einhverra að stíga þau skref að auka á óhagkvæmni greinarinnar og þjóðhagslega óhagkvæmni þess sem við fáum frá henni þegar svona félagsleg leið er farin. Það getur vel verið að einhverjir vilji réttlæta það með því að fleiri geti komist að til að fiska, fleiri geti tekið þátt í veiðunum, þetta auki tímabundið líf í einhverjum höfnum landsins yfir hásumarið og geti mögulega greitt fyrir einhverri nýliðun sem ég held reyndar að sé misskilningur. Hitt eru staðreyndir að líf í einhverjum höfnum eykst tímabundið, það eru fleiri sem koma að þessu, þetta hefur þannig einhver aukin umsvif tímabundið á einhverjum stöðum. Þetta hefur líka hækkað verð á bátum og tækjabúnaði til veiða þannig að það er miklu dýrara fyrir þá sem eru að fara í þessar smáskammtalækningar en áður var.

Það má líka reikna með því að í sumar muni fjölga mjög í þessu kerfi, sérstaklega vegna þeirrar kvótastöðu sem er almennt vandamál í dag í sjávarútvegi. Það hefur áður komið fram í þessari umræðu að víða um land er útgerð að stöðvast, sérstaklega smærri báta, með þeim afleiðingum að smærri fiskvinnslur um allt land munu einnig stöðvast og það er fyrirsjáanlegt að með sömu þróun muni margir þurfa að fara á atvinnuleysisskrá vegna þessa. Margir af þessum aðilum munu eflaust skrá sig í þetta kerfi þannig að fyrirsjáanleg er mikil aukning á þeim sem fyrir eru í sjávarútvegi sem munu reyna að koma sér inn í þetta kerfi til að reyna að bjarga sér um eitthvað. Það gerir það að verkum að minna verður til skiptanna fyrir allan þann fjölda sem fer og lítið út úr þessu að hafa á heildina litið.

Hvaða reynslu höfum við frá fyrra ári varðandi þróun á nýliðun í sjávarútvegi sem er tengd þessum strandveiðum? Hún er mjög lítil. Mjög stór hluti af þeim sem tóku þátt í þessu í fyrra var bátar sem að öðru leyti eru í einhverjum öðrum veiðum, en síðan er það líka almennt talað og vitað að þeir sem höfðu selt sig út úr greininni sáu þarna möguleika á að komast inn í hana aftur. Það er blóðugt fyrir margar útgerðir, og þar er ég kannski sérstaklega að vitna til minni útgerða, smábátaútgerða og minni og meðalstórra útgerða, sem á undanförnum árum hafa staðið í miklum kvótakaupum, hafa skuldsett sig mjög mikið til að ná sér í viðbótarkvóta. Við getum öll verið sammála um að þær aðstæður sem hafa verið í samfélaginu á undanförnum árum voru að þessu leyti og fyrir þessa aðila mjög óheppilegar eins og svo margt annað. Kvótaverð var í raun komið fram úr því sem eðlilegt getur talist en þessir aðilar hafa margir skuldsett sig til að fjárfesta í kvóta og urðu síðan fyrir miklum skerðingum. Nú þegar verið er að bæta við 6.000 tonnum í bolfiski fá þessir aðilar ekki það sem var búið að skerða hjá þeim heldur er því í raun úthlutað með allt öðrum hætti. Það horfir hver sínum augum á réttlætið í þeim efnum, en það er alveg ljóst að þeir sem eru skuldsettir, starfa í þessari grein allt árið, eru í þessu til að skapa verðmæti og atvinnu fyrir sig og starfsmenn sína allt árið, sjá þarna fara ákveðna möguleika á að efla rekstur sinn og auka þannig enn meira hagkvæmni og arðsemi greinarinnar. Þetta er ekkert annað en aukning í aflaheimildum sem er ráðstafað með öðrum hætti.

Ef menn hefðu viljað hugsa þetta til að efla byggðir landsins, hafnir landsins, fiskvinnslu og veiðar, hefði verið hægt að fara aðrar leiðir. Byggðakvótinn er dæmi um atriði sem að mörgu leyti hefur tekist vel. Þetta er vissulega umdeilt atriði, gagnrýnt af mörgum þeim sem eru fyrir í greininni, en hefur óneitanlega stuðlað mjög að nýliðun í sjávarútvegi. Hann er ákveðnar dyr fyrir þá sem vilja byrja, sérstaklega þá sem byrja smátt, byrja kannski útgerð á einum bát, og vilja hasla sér völl í sjávarútvegi.

Byggðakvóti er á þessu ári 3.885 tonn og hann gerir víða gæfumuninn fyrir smábátaútgerðir. Úthlutun á honum er bundin mjög föstum reglum sem snúa að því að hann verði til að efla atvinnu í heimabyggð, skjóta frekari stoðum undir rekstur minni útgerða sem kannski hafa margar hverjar ekkert mjög sterka kvótastöðu, hjálpar þessum nýliðum í greininni til að hasla sér völl, gerir þeim kleift að kaupa meiri kvóta. Ef við hefðum viljað beita svona félagslegu úrræði vorum við þarna með kerfi sem vissulega hefur sannað sig.

Það hefur aldrei verið auðvelt að fara af stað í útgerð. Það var það ekki á árunum þegar kvótakerfið var sett á. Þá var, eins og ég sagði áðan, viðvarandi tap í þessari grein. Menn vildu ekki fjárfesta í henni vegna þess að það var engin arðsemi, það var ekkert vit í að setja fjármagn í hana, og hlutirnir litu að því leyti mjög illa út. Sem betur fer hefur þróunin sem hefur átt sér stað aukið verðmæti fyrirtækjanna, aukið á arðsemi þeirra og þar með verðmætið. Sennilega hefur aldrei verið auðveldara að hefja útgerð en einmitt í dag. Menn hafa alltaf þurft fjármagn til að hefja rekstur og þeir fara ekki út í neinn rekstur öðruvísi en að hafa eitthvert fjármagn. Þeir sem eiga eitthvert fjármagn í dag geta keypt sér lítinn bát og farið að róa, geta leigt til sín kvóta, geta keypt sér einhvern kvóta, geta landað til vinnslu í heimabyggð og fengið þannig úthlutað byggðakvóta. Það eru fjölmörg dæmi um ungt fólk sem gerir þetta í dag. Strandveiðarnar koma hreinlega illa við þetta fólk. Þessar útgerðir eru of öflugar til að hægt sé að hanga með einhverju raunverulegu réttlæti í strandveiðum þar sem menn mega koma með 600–700 kíló á land á dag. Það er miklu hagkvæmara fyrir þessar útgerðir að fara færri túra og koma með meira magn af verðmætari fiski og geta hagað veiðum sínum eftir því hvernig markaðirnir eru, hvernig verðið er á markaði, hvert þeir eiga að sækja, hvort þeir eiga að sækja ýsu núna eða þorsk, hvert þeir eiga að fara. Það er miklu betra fyrir þessar útgerðir að geta nýtt svona kvóta og svona aflaheimildir í þágu þess og það er kannski hin raunverulega aðgerð til að skjóta styrkari stoðum undir byggðirnar.

Það er því varla með nokkru móti hægt að segja að sú ráðstöfun sem hér er til umræðu, að fara svona í þessar strandveiðar, sé að nokkru leyti til þess fallin til lengri tíma að skjóta styrkari stoðum undir byggðir landsins, efla veiðar og vinnslu úti um land. Þetta eru veiðar og vinnsla sem fara fram á mjög takmörkuðum tíma ársins. Fólkið á landsbyggðinni, eins og við öll, þarf að hafa vinnu allt árið. Þetta eykur kostnað við að sækja hvert tonn. Þannig skilar þetta minni arðsemi í þjóðarbúið og hefur þau áhrif á útgerð í heild að þetta verður þjóðhagslega óhagkvæmara. Þetta eru staðreyndir sem er ekki hægt að hrekja. Þrátt fyrir að einhverjir þingmenn, Vinstri grænna og Samfylkingar kannski sérstaklega, brosi í salnum að þessu eru þetta staðreyndir sem standa á borðinu og þeim verður ekki haggað.

Ég er út af fyrir sig mjög hlynntur því að við reynum að finna leiðir til að efla byggðir landsins, efla vinnslu og veiðar úti um land. Ég er að því leyti stuðningsmaður byggðakvótans að ég hef séð í verki hvaða áhrif hann hefur haft á ungt fólk sem er að hasla sér völl í þessari grein. Ég fullyrði að það eru til leiðir til að stuðla enn frekar að því. Það verður að sama skapi að taka tillit til þeirra sem eru á stærri skipunum sem þetta er í raun skerðing á. Þetta er til að mynda ekkert annað en skerðing á réttindum sjómanna á togurum. Sem félagslegt úrræði, eins og þetta er hugsað, er þetta ekki að mínu mati skynsamlegasta leiðin sem er hægt að fara. Það hefði verið hægt að fara allt aðrar leiðir í félagslegum úrræðum með sömu markmiðum á þeim vettvangi sem hefðu skilað miklu betri árangri, bæði í aukinni hagkvæmni greinarinnar og fyrir einstakar útgerðir, þá sérstaklega útgerðir sem eru að hasla sér völl, ungt fólk sem er að hasla sér völl í þessari grein við erfiðar aðstæður að mörgu leyti vegna þeirra efnahagslegu kjara sem við búum við um þessar mundir.