138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[19:11]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir merkileg þessi útlegging hv. þm. Jóns Gunnarssonar á því að verið sé að breyta íslenskri fiskveiðistjórn úr því að vera hagkvæmur atvinnurekstur yfir í það að vera félagslegt úrræði. Þetta er eiginlega málflutningur sem er ekki boðlegur að mínu viti.

Mig langar að minna hv. þingmann á og held að það væri bara hollt fyrir þingheim að rifja það upp hvert er hið eiginlega markmið með núgildandi fiskveiðistjórnarlögum.

Með leyfi forseta, segir í 1. gr. núgildandi laga um stjórn fiskveiða:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Ég held að það sé nefnilega hollt að hafa það hugfast svona af og til hvert markmiðið er með allri löggjöf, hvert markmiðið er með því lagaumhverfi sem við reynum að skapa atvinnuvegum landsins, efnahagslífi þess o.s.frv. Það eru auðvitað hinar samfélagslegu þarfir og byggðin í landinu, það er auðvitað það sem málið snýst um.

Að reyna að slíta þetta tvennt í sundur eins og hægt sé að aðskilja þetta tvennt finnst mér bara málflutningur sem ekki á erindi á þennan vettvang.