138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[19:15]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það gengur ekki að vitna hér í hálfar setningar. Ef við ætlum á annað borð að fjalla um markmið fiskveiðistjórnarlaganna vitnum við ekki í hálfa setningu og hættum í miðju kafi. Það er vissulega rétt að markmið þeirra er að stuðla að verndun og hagkvæmni en ekki síður að tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Við getum ekkert lokað augunum fyrir þessum síðari hluta setningarinnar þegar við tölum um markmið fiskveiðistjórnarlaganna.

Hv. þingmaður talar um dýrar veiðar, það sé staðreynd sem ekki verði haggað, og talar um að hér sé verið að fara út í mjög óarðbærar og óhagkvæmar aðferðir við fiskveiðistjórn. Þessar fullyrðingar þingmannsins stangast algjörlega á við þá vönduðu og góðu skýrslu sem Háskólasetur Vestfjarða hefur unnið fyrir sjávarútvegsráðuneytið þar sem sérstaklega er komið inn á hinn samfélagslega ávinning, bæði hagrænan og félagslegan, af strandveiðunum sem gerð var tilraun með síðasta sumar. Þar af leiðandi er full ástæða til að ætla að framhald reynslunnar verði í sama dúr.

Hitt er annað mál að ekki hefði ég neitt á móti því þó að hinir hagrænu þættir yrðu kannaðir betur. Ég get tekið undir það með þeim sem talað hafa í þessari umræðu hér á undan mér að það er nokkuð sem mætti vinna betur og gera nánari úttektir á. Ég efast ekki um að sú niðurstaða er stjórnvöldum í hag í þessu máli.