138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skeldýrarækt.

522. mál
[19:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vel má vera að ekki sé nægilega skýrt kveðið á um aðkomu skipulagsyfirvalda sveitarstjórna, en þó hélt ég að ef sótt er um leyfi og leyfisumsóknin hvílir á þeim sem vill fara að hefja eldi, hlyti viðkomandi að þurfa að sækja um slíkt til þar til bærra aðila sem um ræðir. Ef ástæða er til, að mati nefndarinnar, að hnykkja betur á í þeim efnum treysti ég nefndinni til að skoða það. En eins og ég segi, flestir sem sækja um leyfi þurfa náttúrlega að átta sig á því hvar þeir gera það og síðan skila þeir inn leyfisumsókn til viðkomandi stjórnvalda eftir að hafa fengið þau gögn sem nauðsynleg eru.

Ég treysti nefndinni til að fara yfir þau atriði sem hv. þingmaður nefndi ef ekki er nægilega kveðið á um þau eða hlutdeild skipulagsyfirvalda sveitarfélaga ekki gerð nægileg skil hér.

Varðandi heilnæmiskönnunina er það svo að skeldýr eru mjög viðkvæm fyrir efnum, fyrir þungmálmum og öðrum efnum, fyrir mengunarefnum, og finna kannski fyrst fyrir þeim í lífríkinu og eru því oft notuð sem mælikvarði á slíkt. Við vitum að sum svæði hér við land hafa verið talin óhæf til kræklingaeldis, m.a. vegna kadmíum eða slíkra þungmálma. Þess vegna er t.d. (Forseti hringir.) kræklingaeldi í sjó mjög viðkvæmt hvað þetta varðar og því mjög mikilvægt að ítarleg úttekt fari fram.