138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skeldýrarækt.

522. mál
[20:15]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mitt andsvar er ekki andmæli við ræðu hv. þingmanns nema síður sé. Ég tek undir þetta með skipulagsþáttinn vegna þess að það hefur nýlega komið til tals í hv. umhverfisnefnd þar sem fjallað er um skipulagslögin í heild sinni. Þá kom til umræðu fiskeldi í fjörðum, skeldýrarækt og fleira sem er beint fyrir framan fjöruborð sveitarfélaga og byggðarlaga án þess að sveitarfélögin hafi í raun og veru skipulagsvald yfir því. Þau hafa að vísu umsagnarrétt en eins og bent hefur verið á fylgja þessu mannvirki sem hafa áhrif í byggðarlögunum og síðan, eins og í tilfelli skeldýraræktarinnar, eru stundum álitamál hvort viðkomandi atvinnustarfsemi er í landi eða á sjó. Ég tek heilshugar undir að þetta er nokkuð sem löggjafinn þarf að samræma vegna þess að aðskiljanleg lög eru um þessa atvinnustarfsemi. Þetta þarf að samræma og taka til skoðunar.