138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

skeldýrarækt.

522. mál
[20:52]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þingmaður kom að í ræðu sinni þá var komið til móts við Byggðastofnun með styrkingu eigin fjár. Að mínu mati þarf að gera enn meira en engu að síður eru stjórnvöld að undirstrika mikilvægi Byggðastofnunar í málum sem þessum þannig að í sjálfu sér er það pólitískur vilji og skilaboð til stofnunarinnar. Síðan er náttúrlega hennar að meta hvernig hún vinnur úr því.

Varðandi þessar leyfisveitingar þá legg ég áherslu á að í nágrannalöndunum er þetta misjafnt eftir löndum. Til dæmis eru ekki sérstök lög um þetta í Danmörku eða á Írlandi en þar er þetta hluti af fiskveiðilöggjöfinni. Ráðherra á Írlandi veitir heimild til að gefa út rekstrarleyfi þarlendis en það vald hefur í Danmörku verið framselt til Fiskeridirektoratet og sérstakar reglur gilda um útgáfu leyfa og eftirlit með starfsemi. Reglugerðir um heilnæmis- og matvælaeftirlit eru byggðar á EES-reglugerðum.

Í kræklinga- og skelrækt er mjög stutt á milli annars vegar ræktarinnar og framleiðslunnar og hins vegar Matvælaeftirlitsins. Þess vegna er að mínu mati svo nauðsynlegt að tengja skeldýraræktina beint við Matvælaeftirlitið því að það er einn af hinum viðkvæmari þáttum í þessu ferli öllu og skilur sig þar nokkuð frá t.d. eldisfiski, því þó að hann sé líka mjög nátengdur Matvælaeftirlitinu þá eru (Forseti hringir.) boðleiðirnar engu að síður mjög stuttar og mjög stutt á milli hvað varðar skeldýraræktina sjálfa og Matvælaeftirlitið sem þarf að geta fylgt málum eftir.