138. löggjafarþing — 111. fundur,  26. apr. 2010.

útlendingar.

509. mál
[21:24]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um útlendinga, nr. 96/2002. Í frumvarpinu er lagt til að tveimur nýjum ákvæðum um dvalarleyfi verði bætt við lög um útlendinga til hagsbóta fyrir fórnarlömb mansals. Sækja ákvæðin fyrirmynd sína til samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali frá 3. maí 2005 sem fyrirhugað er að fullgilda af Íslands hálfu eins og ráð er fyrir gert í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gegn mansali. Annars vegar er um að ræða ákvæði sem mælir fyrir um tímabundið dvalarleyfi í sex mánuði sem Útlendingastofnun skal veita einstaklingi sé fyrir hendi grunur um að viðkomandi sé fórnarlamb mansals. Áður en dvalarleyfið er veitt skal Útlendingastofnun óska eftir umsögn lögreglu um umsóknina. Ekki er nægilegt að gera tilkall til dvalarleyfis á þessum grundvelli, heldur verður grunur að vera fyrir hendi um að viðkomandi sé fórnarlamb mansals eins og nánar er gerð grein fyrir í greinargerð með frumvarpinu.

Sé dvalarleyfi veitt á þessum grundvelli er óheimilt að vísa viðkomandi af landi brott á tímabilinu þrátt fyrir að brottvísunarheimild 20. gr. laganna eigi við. Ákvæðið sækir fyrirmynd sína til 13. gr. Evrópuráðssamningsins en þar er tímabilið kallað afturbata- og umþóttunartímabil. Er því ætlað að gefa fórnarlambi mansals tækifæri til að ná bata og losna undan áhrifum þeirra sem stunda mansal sem og að stuðla að því að fórnarlambið geti tekið upplýsta ákvörðun um samstarf við yfirvöld. Rétt er að taka fram í þessu sambandi að þannig getur háttað til að rannsókn lögreglu sé ekki hafin þegar sótt er um dvalarleyfi og er veiting þess í raun óháð því hvort slík rannsókn fari fram. Ákvæðinu er þó ekki ætlað að hafa áhrif á rannsókn og saksókn vegna umræddra brota og kemur ekki í veg fyrir skyldu fórnarlambsins samkvæmt lögum til að bera vitni í málinu.

Hins vegar er um að ræða ákvæði sem mælir fyrir um að Útlendingastofnun sé heimilt að veita fórnarlambi mansals endurnýjanlegt dvalarleyfi til eins árs þegar talið er að dvöl fórnarlambs mansals hérlendis sé nauðsynleg vegna persónulegra aðstæðna þess og/eða vegna samvinnu þess við yfirvöld í tengslum við rannsókn eða við meðferð sakamáls. Ákvæðið sækir fyrirmynd sína til 14. gr. samnings Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali. Tafarlaus endursending fórnarlamba mansals til heimalands þeirra þykir leiða til þess að fórnarlömb greini síður frá reynslu sinni eða beri vitni gegn þrælasölum sínum.

Vitnisburður fórnarlamba mansals þykir afar mikilvægur í baráttunni gegn mansali og er talið að eftir því sem unnt er að veita fórnarlömbum meiri vissu fyrir því að réttinda þeirra og hagsmuna sé gætt þeim mun betri upplýsingar geti þau gefið yfirvöldum. Dvalarleyfið getur ekki verið grundvöllur búsetuleyfis en í veitingu þess felst að unnt er síðar, ef grundvöllur áframhaldandi dvalar fórnarlambs hér á landi breytist, að veita aðra tegund dvalarleyfis, þar á meðal dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur búsetuleyfis að uppfylltum sérstökum skilyrðum fyrir einstökum tegundum slíkra dvalarleyfa.

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu efnisákvæðum þessa frumvarps og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.