138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Í gær átti ég samræður við hæstv. fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon um skuldavanda heimilanna og þann þátt sem lýtur að honum í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í þeirri umræðu og í svari hæstv. fjármálaráðherra til mín var sá skilningur staðfestur að ríkisstjórnin ætli sér að grípa til úrræða fyrir lok júní til að leysa skuldavanda heimilanna. Þar kemur jafnframt fram að eftir októberlok verði ekki ráðist í frekari tilslakanir fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu, sem þýðir að ef ríkisstjórninni tekst ekki fyrir októberlok að leysa skuldavanda heimilanna mun holskefla nauðungarsala ríða yfir það fólk sem er í mesta skuldavandanum. Ríkisstjórnin er með öðrum orðum búin að undirrita og staðfesta að ekki verður farið í frekari aðgerðir.

Það gerir hæstv. ríkisstjórn væntanlega í þeirri trú að skuldavandann verði búið að leysa fyrir lok október. Það vita þó allir sem í þessum sal eru og raunar alls staðar í þjóðfélaginu að það mun ekki takast. Það hefur illa tekist upp síðasta eina og hálfa árið, vandamálin hrannast upp og aukast sífellt. Það er kannski ástæða til að minna á það og rifja upp að á fínum blaðamannafundi fimm hæstv. ráðherra í Þjóðmenningarhúsinu lýsti hæstv. forsætisráðherra því yfir að allar tillögur ríkisstjórnarinnar varðandi skuldavanda heimilanna væru komnar fram. Í ljósi þess og ef við gefum okkur að ríkisstjórninni takist ekki að leysa skuldavanda heimilanna fyrir októberlok vil ég spyrja hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, (Forseti hringir.) starfandi formann félags- og tryggingamálanefndar, hvaða áform hún og hennar flokkur hafa um að leysa þennan skuldavanda heimilanna og til hvaða aðgerða flokkur hennar hyggst grípa (Forseti hringir.) ef ekki tekst að leysa þann vanda sem getið er um í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, fyrir októberlok.