138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Í morgun dæmdi Mannréttindadómstóll Evrópu að iðnaðarmálagjaldið brjóti ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu sem hið háa Alþingi hefur fest í lög. Ég hef í tvígang flutt frumvarp um að hætt verði að beita afli ríkisins við að innheimta þetta félagsgjald til Samtaka iðnaðarins, sem ég tel að öðru leyti vinna gott starf. En það gengur ekki að skylda aðila til að borga til félaga sem þeir eru hugsanlega á móti og beita til þess skattaúrræðum ríkisins. Þetta skekkir auk þess jafnræði og samkeppni annarra félaga á sama sviði.

Iðnaðarmálagjaldið er ekki eitt á báti heldur stendur ríkið í innheimtu á margs konar félagsgjöldum samkvæmt lögum. Ég hef flutt frumvarp um að afnema búnaðargjaldið, sem er félagsgjald til Bændasamtaka Íslands sem vinna einnig ágætt starf. Þá má nefna fiskræktargjald sem greitt er fyrir vatnsaflsvirkjanir og rennur til Fiskræktarsjóð og STEF-gjald sem er 1% af öllum tölvum, og fylgihlutum þeirra, sem seldar eru í landinu og rennur til höfundarréttarfélags STEF.

Grófasta dæmið er sennilega 2. mgr. 7. gr. laga um kjarasamning opinberra starfsmanna en þar eru allir opinberir starfsmenn skyldaðir til að greiða félagsgjald til ákveðins opinbers stéttarfélags. Ég hef sjö sinnum flutt frumvarp um að afnema þá skyldu. Þar er hvorki kveðið á um hámark á því gjaldi né hvað það eigi að gefa í réttindi.

Þetta eru mikil tíðindi, frú forseti, að hér hafi tíðkast að einhverju leyti mannréttindabrot í lengri tíma og er brýnt að hið háa Alþingi bregðist við fljótt.