138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

störf þingsins.

[13:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í kjölfar birtingar rannsóknarskýrslu Alþingis hefur okkur orðið tíðrætt um hvernig verklag við eigum að viðhafa, styrkingu Alþingis og hvernig framkvæmdarvaldið og Alþingi spila saman, hver á að gera hvað og hvaða kröfur eru um fagmennsku og aðra hluti. Við framsóknarmenn höfum talað mikið fyrir nauðsyn þess að setja á laggirnar stjórnlagaþing til að menn átti sig á því á hvaða verksviði hver á að vinna. Þess vegna verð ég að segja að forsíða Fréttablaðsins í dag vakti nokkra undrun mína, hún gerir það reyndar stundum en í dag vakti hún undrun mína meira en oft áður. Þar stendur, með leyfi forseta, í forsíðufrétt:

„Forseta settar siðareglur. Embætti forseta Íslands verða settar siðareglur.“

Og síðar í þessari forsíðufrétt stendur:

„Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í Garðabæ fyrir tíu dögum sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra að í ljósi skýrslunnar þyrfti að endurskoða stöðu forsetans og setja embætti hans siðareglur. Hefur hún nú sett undirbúning þess af stað.“

Þetta vekur talsvert undrun mína, ég verð að segja það alveg eins og er. Ég vissi ekki að það væri á verksviði forsætisráðherra að fara á fund úti í bæ og fullyrða að hafin séu störf að undirbúningi að setningu siðareglna fyrir forsetaembættið. Ég vil spyrja þingheim hvort þetta verkefni eigi ekki þá frekar heima hér þó að eðlilegast sé e.t.v. að það sé hjá forsetanum sjálfum út frá því sem ég fæ best séð af stjórnarskrá okkar. En það er nauðsynlegt að við setjum upp stjórnlagaþing og förum yfir þau verksvið þar sem hver og einn á að vinna. Ég er eiginlega alveg sannfærður um að niðurstaða þess stjórnlagaþings, þó að ég ætli ekki að dæma um það fyrir fram, yrði ekki sú að forsætisráðherra gæti upplýst á einhverjum fundum hingað og þangað að þessum og hinum yrðu settar siðareglur og allra síst forseta Íslands.

Þessi frétt vakti (Forseti hringir.) svo mikla undrun mína að önnur frétt á sömu forsíðu vakti ekki eins mikla undrun en hún er þó merkileg. Að vísu urðu menn frá Sameinuðu þjóðunum gáttaðir á því að ítalskur hani hafi skipt um kyn.