138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir þá umræðu sem farið hefur fram um skuldavanda heimilanna sem er auðvitað ærinn og eitthvert alvarlegasta samfélagsmein sem við glímum við í dag. Ég vil árétta það sérstaklega vegna orða hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur að ég mæli ekki fyrir því að skuldavandi heimilanna sé leystur með því að honum sé frestað. Ég bendi á að það eru þau vandamál sem þessi ríkisstjórn hefur komið heimilunum í. Hún hefur ekki leyst þann vanda sem uppi er heldur frestað honum aftur og aftur sem hefur gert það að verkum að ríkisstjórnin hefur verið að lengja í hengingarólinni. En nú er kominn tími til að menn fari að leggja fram einhverjar hugmyndir um það hvernig á að leysa skuldavanda heimilanna.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir segir. Það verður að bregðast við og það verður að bregðast við núna vegna þess að í viljayfirlýsingu ríkisstjórnarinnar gagnvart Alþjóðagjaldeyrissjóðnum kemur skýrt fram að ríkisstjórnin ætlar ekki að gera neitt meira varðandi skuldamál heimilanna. Það kom líka fram á blaðamannafundi ráðherranna sem haldinn var í Þjóðmenningarhúsinu. Þar var kynnt lokasvar ríkisstjórnarinnar og því miður verð ég að segja að svar hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur gerði mig ekkert sérstaklega bjartsýnan. Jú, jú, ég er vel upplýstur um að það á að fara að koma hér á fót embætti umboðsmanns skuldara og það eru ýmis mál til umfjöllunar í þinginu. En það kom ekkert nýtt fram í máli hennar varðandi tillögur um úrbætur og lausn á skuldavandanum. Það hefur ekkert komið neitt nýtt fram frá þessari ríkisstjórn. (Forseti hringir.) En stjórnvöld verða að fara að svara því núna: Hvers mega þær fjölskyldur sem eru í fjárhagsvanda vænta í lok október? (Forseti hringir.) Menn verða að fara að svara því.