138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að slá þann sáttatón sem ég held að sé mikilvægt að sé í þessari alvarlegu umræðu sem varðar grundvallarvelferð heimila á Íslandi. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson ræddi um mannvirðingu á Alþingi, það væri vantraust á Alþingi vegna þess að hér væri talað og talað og minna gert.

Hv. þingmaður ræddi jafnframt um að um fjórðungur heimila væri í alvarlegum vanda og þar af væri yngra fólk í áberandi meiri hluta. Á hinn bóginn talar hv. þingmaður um að þennan vanda eigi að leysa með almennri niðurfærslu (Gripið fram í.) allra skulda. Ég vil bara ítreka að að mínu mati ýtir svona málflutningur ekki undir traust á Alþingi. Það sem hefur margoft komið fram er að ákveðið hlutfall íslenskra heimila er í alvarlegum vanda og stendur frammi fyrir því að velferð þeirra er í hættu. Það er sá hópur sem okkur ber skylda til að líta til og leysa vandann hjá. En það virðist þurfa að ítreka það hér iðulega að hrun bankakerfisins og gjaldmiðilsins, íslensku krónunnar, olli gríðarlegu eignatjóni og lífskjaraskerðingu til næstu ára. Það er það sem öll heimili á Íslandi eru að takast á við og það leysum við ekki með einföldum hætti. En okkur ber skylda til að líta til þeirra sem eru í alvarlegum vanda, þurfa aðstoð til að halda heimili og sjá sér farborða. Ég held að við eigum að fara varlega í að nota umræðu um alvarlegan skuldavanda ákveðinna heimila á Íslandi til að slá hér pólitískar keilur.