138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

staða og fjárhagslegar afleiðingar eldgoss í Eyjafjallajökli.

[14:04]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að fá að eiga orðastað við hann um alvöru mála í framhaldi af eldgosinu í Eyjafjallajökli.

Árnessýsla, Rangárvallasýsla og Skaftafellssýsla eru einhverjar mikilvægustu matarkistur Íslands og matarkistunum verður að halda til haga. Nú hallar á á ákveðnum svæðum, svæðum Suðurlands undir Eyjafjöllunum og í nágrenni. Þess vegna er mikilvægt að bregðast skjótt og vel við öllum þáttum sem hægt er að bregðast við og ná árangri strax.

Almannavarnir, björgunarsveitir, lögregla, Vegagerð og sveitarstjórn Rangárþings eystra brugðust vel við í öllum aðgerðum þegar váin dundi á og það hefur gengið nær alveg stóráfallalaust að sinna þeim verkum sem þurfti að sinna á þessum tíma. Fyrir það ber að þakka, og að menn hafi staðið vel saman og skipulega. Það er líka ástæða til að þakka björgunarsveitum og Rauða krossi Íslands, sjálfboðaliðum með tól, skóflur og ámoksturstæki, hefla og annað sem mættu á svæðið til hjálpar, fyrirtækjum sem sendu tæki á bæi til að sinna verkum sem varð að vinna. Þetta er allt af hinu góða og sýnir að menn standa saman þegar á reynir.

Það svæði sem mest er um rætt undir Eyjafjöllunum, alls um 80 býli og heimili, fyrir utan nokkra tugi sumarbústaða, er svæðið sem mest þarf að huga að á þessari stundu. Viðbrögðin sem liggja fyrir í dag eru þau að sveitarstjórn Rangárþings eystra óskar eftir samvinnu við Vegagerð, Landgræðslu, Búnaðarfélagið og Almannavarnir til að taka til hendinni strax þar sem þörfin er brýnust, þ.e. að vinna að markvissri uppbyggingu, til að mynda varðandi styrkingu varnargarða á öllu svæðinu. Það er alveg sama hvort það er austan eða vestan Markarfljóts, þar verður að taka til hendinni. Í Fljótshlíðinni verður strax að tryggja garðana sem verja stærstan hluta Rangárvallasýslu og reyndust vel í flóðunum sem dundu úr jöklinum og eins til að mynda Svaðbælisá við Þorvaldseyri þar sem flóðið fór niður sem setti túnin á Önundarhorni undir jökulleir, tugi hektara af túnum sem hægt er að hreinsa, plægja og rækta upp á nýtt. Það er alls staðar verk að vinna sem þarf að vinna af því að það er hægt að leysa verkefnin. Til þess verða stjórnvöld að koma fast og ákveðið inn í og þar réði úrslitum yfirlýsing hæstv. fjármálaráðherra í síðustu viku fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um að styrkja Bjargráðasjóð. Um leið lá ljóst fyrir að Viðlagatrygging verður ekki í vandræðum með að bæta tjón en hún þarf auðvitað að gæta þess að bæta ekki með hangandi hendi heldur að það verði borð fyrir báru og tjónið bætt á myndarlegan hátt.

Búnaðarfélag Fljótshlíðar hefur þegar óskað eftir því að strax verði hafist handa við að lagfæra varnargarðana við Markarfljót. Það er verk sem má ekki bíða, það er nóg til af stórum tækjum í landinu sem eru ekki í notkun í dag og það þarf að vaða í að láta vinna þessi verk nú þegar á næstu vikum. Þetta er ekki meira verk en svo að það er hægt að ljúka því á nokkrum vikum með því að skipuleggja það vel og ganga til verka. Ég skora á hæstv. fjármálaráðherra að hafa nú frumkvæði að því að reka trippin, eins og sagt er, ýta á að nú þegar verði gengið til verka og ekkert hangs eða hik haft við það. Það eru þessir þættir sem skipta miklu máli.

Það eru mörg atriði sem þarf líka að huga að. Það þarf til að mynda að tryggja að unnt sé að lengja í lánum bænda á svæðinu, þessara fáu bænda sem nú reynir verulega á og hafa ekki haft borð fyrir báru. (Forseti hringir.) Ég kem í síðari ræðu að fleiri atriðum, að tryggja heyforða, rekstrartryggingu, (Forseti hringir.) byggja upp björgunarsveitir o.s.frv.