138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

staða og fjárhagslegar afleiðingar eldgoss í Eyjafjallajökli.

[14:17]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Árna Johnsen, fyrir þessa þörfu umræðu. Eins og þingheimur og alþjóð veit er hv. þingmaður engum líkur í að drífa hluti í gang og hann hefur verið prímus mótor í ýmsu fyrir austan.

Fjárhagsleg staða og afleiðingar af eldgosinu varða auðvitað fyrst og fremst ábúendurna, bændurna á svæðinu, og hvernig ríkisvaldið getur komið til móts við þá. Hér skiptir miklu yfirlýsing sú sem ríkisstjórnin var með í síðustu viku um næga fjármuni Viðlagatryggingar og eins að Bjargráðasjóði verði tryggt nægilegt fé, en einnig þarf að tryggja að menn festist ekki í lagahyggju við að meta hvaða tjón verði bætt. Hreinsun bæjarhlaða, túna og akra, endurræktun túna, endurgerð og uppbygging vega og varnargarða er brýn auk þess sem bæta þarf mannvirki eins og girðingar. Ef með þarf þarf að tryggja Fyrirhleðslusjóði eða Landbótasjóði Landgræðslunnar meira fé, Bjargráðasjóður eða Viðlagatrygging bætir það ekki. Ég heyrði á ræðu hæstv. fjármálaráðherra að jafnvel væri möguleiki að fá fjármuni úr Viðlagatryggingu til forvarnastarfa.

Í öðru lagi þarf að huga að þeim stofnunum sem hafa orðið fyrir miklum útgjöldum vegna hamfaranna hér. Til að mynda má nefna sýslumanninn og lögreglu í Rangárþingi, björgunarsveitir, Rauða kross og Almannavarnir, þar með talda ríkislögreglu. Allir þessir aðilar hafa staðið sig afburðavel eins og við þekkjum. Auk þess má nefna heilbrigðisstofnanirnar og vísindasamfélagið. Einnig þarf ríkisvaldið að huga að því hvort ekki þurfi að styðja við bakið á sveitarfélaginu Rangárþingi eystra sem verður fyrir miklum og óvæntum útgjöldum og eins Heilbrigðiseftirliti Suðurlands sem hefur þurft að gjörbreyta áætlunum sínum og hefðbundinni vinnu og orðið fyrir óvæntum útgjöldum, eins og aðrar áðurnefndar stofnanir.

Í þriðja lagi ætlar ríkisvaldið að koma til móts við aðstæður með sveigjanleika. Til að mynda má nefna að reglugerð um einstaklingsmerkingar á hrossum sem tók gildi 1. apríl sl. þvælist fyrir að hægt sé að afsetja hross. Þá reglugerð mætti afnema, í það minnsta seinka gildistíma til hausts eða næsta 1. apríl. Skoða þarf varnarlínu með það fyrir augum að vega og meta meiri og minni hagsmuni. (Forseti hringir.)

Í fjórða lagi þarf að setja aukið fjármagn til markaðssetningar og fagna ég yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í morgun þar að lútandi.