138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

stjórn fiskveiða.

370. mál
[14:39]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þó að þetta sé eins konar önnur tilraun til þess að setja lög um hinar svokölluðu strandveiðar er málið gjörsamlega óútfært. Gamla reddingarleiðin sem ríkisstjórnin og meiri hluti stjórnarliða kýs að fara í þessum efnum er að verða gamalkunn þegar við skoðum frumvörpin sem koma frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þegar kemur að álitaefnunum vísar meiri hluti sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar málinu frá sér inn í ráðuneytið og treystir því á forsögn og leiðsögn hæstv. ráðherra í þeim efnum, afhendir honum alræðisvald um það hvernig eigi að útfæra verklagið varðandi strandveiðarnar.

Þetta er auðvitað gjörsamlega ólíðandi lagasetning og ekki hægt að styðja hana. Hins vegar er það svo að gerðar hafa verið miklar kröfur um að auka aflaheimildir í landinu. Hæstv. ráðherra hefur vísað á strandveiðarnar í því sambandi og sagt að það sé sú aukning sem er í boði. (Forseti hringir.) Við viljum því ekki leggjast gegn því að hægt sé að auka aflaheimildirnar eins og við höfum gert kröfu um og sitjum því hjá við atkvæðagreiðslu varðandi 1. gr.