138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[15:10]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil aðeins blanda mér í þessa umræðu um breytingu á sveitarstjórnarlögum sem ég held að sé ákaflega mikilvæg. Eftirlitshlutverk eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga hefur ekki verið nógu öflugt, nefndin hefur ekki haft þau tæki sem til hefur þurft til þess að geta raunverulega fylgst með og skoðað hvernig fjármál sveitarfélaganna standa. Ég sé hins vegar fyrir mér að þrátt fyrir þá lagabreytingu sem við erum að tala um hér muni ítarlegri leiðbeiningar þurfa að koma til á næstu mánuðum og missirum, kannski ekki endilega frá Alþingi heldur frá ráðuneyti sveitarstjórnarmála, um það nákvæmlega hvernig sveitarfélög megi skuldsetja sig, hvaða mörk eigi að vera til að mynda á því hversu langt þau megi ganga í skuldsetningu.

Eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson kom inn á er að sumu leyti kyndugt að fáeinir einstaklingar í tiltekinni sveitarstjórn geti tekið fjárhag eins sveitarfélags til margra ára í gíslingu með einhverjum tilteknum ákvörðunum sem íbúarnir hafa kannski aldrei fengið að kjósa um. Að þessu leyti til er mjög mikilvægt að hugleiða það hvort leyfa eigi sveitarfélögunum í meira mæli að hafa svigrúm í því hvernig þau taka gjöld og þá jafnvel að íbúarnir komi með beinum hætti að slíkum ákvörðunum.

Ég nefni þetta vegna þess að ég hafði á námsárum mínum tækifæri til þess að búa í sveitarfélagi þar sem þessi háttur er hafður á, þ.e. íbúarnir fengu að taka sjálfir um það ákvarðanir hvort þeir vildu t.d. hækka útsvar til tiltekinna framkvæmda um stundarsakir eða í lengri tíma. Til þess að koma með mótrökin líka bendi ég á að það er ekki alveg alltaf sjálfsagt að hækka útsvar í nokkur ár til að láta þá sem búa í sveitarfélaginu núna greiða fyrir mannvirkin sem eiga kannski að vera áratug eða marga áratugi fram í tímann.

Ég held að þetta frumvarp sé afar mikilvægt og fagna því eindregið, og fagna í rauninni að það skuli vera komið í gegn núna. En ég hlakka líka til þegar heildarendurskoðunin á sveitarstjórnarlögunum verður komin í gegn og vænti þess að þeir þættir sem ég hef nefnt hérna verði að einhverju leyti skýrðir enn frekar í þeirri vinnu.