138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir innlegg hennar í þessa umræðu sem var þarft og ágætt þó að ég áttaði mig ekki á því í upphafi ræðu hennar í hvaða vandræðum fjárlaganefnd ætti með að afla upplýsinga sem hún óskaði eftir að fá. Hv. þingmaður útskýrir það kannski frekar á eftir. Ég kannast ekki við að fjárlaganefnd hafi átt í erfiðleikum með að fá upplýsingar sem hún biður um, hvorki varðandi fjárhagsstöðu sveitarfélaga, ríkisins né annars, en það kann þó að hafa farið fram hjá mér.

Markmiðið er auðvitað að ná yfirsýn yfir fjármál sveitarfélaga, A-hlutann, tekjur og gjöld, þ.e. rekstrarhlutann, eins og hv. þingmaður nefndi hér áðan, en ekki síður varðandi skuldastöðu sveitarfélaga, hvar sveitarfélögin hafa safnað skuldum, hverjar skuldirnar eru og að auki hverjir möguleikar sveitarfélaga eru til að standa undir þeim skuldbindingum.

Við stöndum frammi fyrir því og höfum rætt í samgöngunefnd þann hluta af skuldbindingum sveitarfélaga, þ.e. eignir sem sveitarfélögin þurfa að leigja til að geta rækt sitt lögbundna hlutverk rétt eins og skóla, leikskóla og önnur mannvirki sem sveitarfélög mörg hver hafa selt frá sér og þurfa síðan að leigja dýrum dómum og hafa þar af leiðandi mörg m.a. komist í þann vanda sem þau eru í núna.

Markmiðið er að ná heildarsýn yfir fjárhagsstöðu sveitarfélaga með eins víðtækum hætti og mögulegt er. Það er sameiginlegt markmið sveitarfélaganna og ráðuneytisins (Forseti hringir.) að það verði gert (Forseti hringir.) þannig að hægt sé að ná betri yfirsýn yfir stöðu þeirra almennt, sem ekki er hægt að gera í dag.