138. löggjafarþing — 112. fundur,  27. apr. 2010.

sveitarstjórnarlög.

452. mál
[15:23]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Val Gíslasyni andsvarið. Það sem ég átti við í upphafi var að fjárlaganefnd ber að hafa eftirlit með fjárlögum. Ríkisstofnanir fara árlega fram úr fjárlögum. Ef jafnvirkt eftirlit ætti að vera með stofnunum ríkisins af hálfu fjárlaganefndar ætti fjárlaganefnd að geta kallað eftir ársfjórðungsuppgjöri stofnana til þess að geta fylgt því eftir og skoðað hver staðan er á sama hátt og kallað er eftir árshlutauppgjöri sveitarfélaganna. Það er það sem ég átti við þegar ég talaði um tvískinnunginn. Mér finnst stundum eins og löggjafinn ætli öðrum annað en það sem hann kannski gerir sjálfur.

Ég þakka hv. þingmanni upplýsingarnar um hvernig nefndin og hæstv. sveitarstjórnarráðherra hyggst fara í þetta verkefni og vinna til þess að gæta fyrst og síðast hagsmuna sveitarfélaganna þannig að þeirra sé að sinna lögbundnum hlutverkum sínum og ana ekki út í óráðsíu að óathuguðu máli, ef svo mætti að orði kveða, þannig að sveitarfélögin í landinu standi sem best héðan í frá.