138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

samkeppnislög.

572. mál
[15:55]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vitaskuld alveg rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að það fylgir því ákveðin óvissa og órói í rekstri fyrirtækja þegar tilkynnt er um samruna eða yfirtökur. Vitaskuld fást ekki svör við öllum spurningum starfsmanna og annarra sem hagsmuna hafa að gæta fyrr en í fyrsta lagi eftir að fyrir liggur hvort samkeppnisyfirvöld muni beita sér gegn samrunanum eða ekki. Þetta liggur allt fyrir og m.a. þess vegna eru höfð mjög knöpp tímamörk á afgreiðslu samruna og reyndar í tveimur þrepum. Í mörgum tilfellum er ekki talin þörf á frekari rannsókn og þá gilda styttri tímamörkin en Samkeppniseftirlitið getur einnig nýtt sér lengri frest í flóknari málum sem taka þarf til ítarlegri skoðunar.

Ég hef talsverða reynslu af að vinna að þessum málum og ég fæ ekki betur séð en að þessi tímamörk séu nokkurn veginn eðlileg. Það er alveg ljóst að það þarf að vinna hratt og því fylgja ákveðnir ókostir en ég held að tímalengdin sé nokkurn veginn þannig að hægt sé að vinna mál sómasamlega þannig að það verði ekki réttarspjöll af því að menn flýti sér um of. Um leið verður töfin ekki þannig að hún sé óréttlætanleg. Ég skal þó vissulega viðurkenna að hægt er að færa málefnaleg rök fyrir bæði lengri og styttri frestum og hærri og lægri viðmiðunarmörkum hvað varðar fjárhæðir. Það er ekkert eitt rétt svar, hvorki varðandi fjárhæðir né tímamörk, en ég fæ ekki betur séð en að Alþingi hafi nokkurn veginn hitt á rétt viðmið, bæði hvað varðar tíma og fjárhæðir.