138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

raforkulög.

573. mál
[16:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hennar og fagna því að farið sé að glitta í tillögur um breytingar á raforkulögum, lögum nr. 65/2003. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að þetta væru áfangatillögur og að nefndin væri enn að störfum og, ef ég tók rétt eftir, mundi skila af sér í haust.

Margt er til bóta í frumvarpinu, ég held að það sé alveg ljóst. Það er til bóta að mínu viti að verið er að breyta stórnotendaviðmiðinu, þ.e. verið er að lækka það, og það rýmkar tækifæri fyrir þá sem vilja koma hingað og byggja upp starfsemi til að fá hagstæðara orkuverð en áður. Við eigum að sjálfsögðu eftir að fara yfir hvort það eru nákvæmlega þau tíu megavött sem útreikningurinn sýnir eða eitthvað annað sem er betra. Flutt var frumvarp árið 2007, frekar en 2008, af hæstv. núverandi utanríkisráðherra, sem ég veit að hæstv. iðnaðarráðherra studdi, þar sem miðað var við átta megavött. Ég lít því svo á að þetta sé ekki endilega heilög tala sem kemur hér fram frá ráðuneytinu og geti tekið breytingum.

Hér er rætt um þriggja ára aðlögun fyrir fyrirtæki sem vilja nýta sér þetta og er það til mikilla bóta þannig að fyrirtæki hafi tækifæri til að byggja sig smám saman upp í þá orkunotkun sem það kemur til með að nota. Við fáum vonandi skýringar á því, ef ekki hér þá í nefndinni, af hverju þetta eru þrjú ár og hvernig þau eru fundin út. Ég hefði talið að tíminn gæti hugsanlega þurft að vera lengri eða kannski einhver sveigjanleiki í þessu, því að það fer að sjálfsögðu eftir því hvað fyrirtækin treysta sér í hraða uppbyggingu hversu fljót þau eru að ná upp í þessa orkunotkun.

Ég ætla að geyma það að tjá mig um eignarhald á Landsneti. Ég reikna með að við í iðnaðarnefnd fáum aðra til að ræða við okkur um þann hluta og leita eftir sjónarmiðum þar um. Ég set spurningarmerki við fjarskiptakerfið og nýtingu á því. Þetta lítur þannig út að þessi fyrirtæki geti farið inn á fjarskiptamarkaðinn og væntanlega keppt við þá sem þar eru ef þeir raska ekki með undirboði eða neinu slíku. Sem sagt, ef orkufyrirtæki ætlar að fara inn á fjarskiptamarkaðinn, verður þá farið inn í eitthvað nýtt sem ekki er fyrir nú þegar? Þetta þarf að skýra. Ég velti því hins vegar fyrir mér hver metur það hvenær fyrirtæki er komið í samkeppni við einhvern og hvenær ekki. Slíkt þyrfti kannski að skýra með einhverjum hætti.

Óhætt er að fagna því líka að það er rýmri heimild til beinnar tengingar, þ.e. uppbygging á einhvers konar iðngörðum, iðnaði eða hvers konar framleiðslu eða tækni sem vill nýta orkuna nálægt orkuframleiðslustaðnum verður auðveldari með þessu frumvarpi og það er að sjálfsögðu til mikilla bóta.

Hins vegar er tvennt sem ég sakna í frumvarpinu, og nú hef ég þann fyrirvara á að mér hafi ekki yfirsést það hreinlega. Við höfum rætt margoft um stöðu garðyrkjunnar og garðyrkjubænda í þingsal, í fjölmiðlum og annars staðar en ég fæ ekki séð að verið sé að koma til móts við þarfir þeirra eða óskir eða verið sé að gera hlutina þannig að garðyrkjan fái betra starfsumhverfi en er í dag. Sé þetta rétt mat hjá mér að ekki sé verið að bregðast við vanda garðyrkjunnar finnst mér að menn ættu að hægja á sér og ákveða hreinlega að það yrði tekið fyrir í nefndinni og skoðað sérstaklega í iðnaðarnefnd, því að ég held að við getum ekki látið þetta tækifæri fram hjá okkur fara sem við höfum hér. Það er verið að breyta lögunum og við getum ekki látið það tækifæri fram hjá okkur fara að styrkja stöðu garðyrkjunnar og þeirra sem nota rafmagn til framleiðslu, eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson orðaði svo snilldarlega, í gjaldeyrissparandi hollustugrein, og það er hverju orði sannara. Við erum að framleiða hágæðaafurðir í grænmeti, blómum og öðru og þessir aðilar hafa þurft að glíma við hækkandi orkuverð og þar af leiðandi versnandi samkeppnisstöðu. Ég held að við þekkjum það, við erum búin að fara það oft í gegnum þessa umræðu hér. En á þessu hangir vitanlega margt annað. Þetta getur líka átt við þá sem eru í fiskeldi og aðra sem nota mikla orku en falla ekki akkúrat inn í þau hólf sem eru í þessum lögum. Ég verð að segja að það eru vonbrigði ef það er rétt að ekki sé tekið á garðyrkjunni þarna. Við verðum alla vega að reyna að sjá til þess að áður en frumvarpið fer endanlega í gegn verði búið að bæta því inn í.

Annað sem mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir er hvort það sé réttur skilningur hjá mér varðandi þessi lög að ekki sé verið að taka á þeim vanda sem við þekkjum hvað varðar Hvalárvirkjun fyrir vestan. Þar hefur ekki verið talið forsvaranlegt að fara í þá virkjun vegna tengigjalda sem þarf að greiða af virkjuninni til Landsnets. Ef ég misskil ekki frumvarpið er ekki heldur tekið á þessum þætti í frumvarpinu núna. Það kann að vera að ætlunin sé að taka á þessu síðar, þ.e. áður en nefndin skilar endanlega af sér. Það kann að vera, bæði þetta og eins með raforkuna. Ég held að það sé engin ástæða til að bíða með að taka á þessum málum. Ég held að við eigum, líkt og ég talaði um áðan varðandi garðyrkjuna, að fara ofan í saumana á því í starfi iðnaðarnefndar og mögulega þeirri nefnd sem lagði grunn að þessu frumvarpi, að leysa þetta mál þannig að hægt sé að fara — ég veit að þetta á örugglega við fleiri virkjanir — í t.d. Hvalárvirkjun og auka þannig afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum sem er vitanlega hrikalegt. Það er fyrir neðan allar hellur hvernig það er. Við höfum fengið fjölda áskorana í þá veru að bæta raforkuöryggið, enda eru hundruð milljóna að tapast út úr samfélaginu fyrir vestan vegna þessa.

Það er margt gott verið að gera hér, ég get tekið undir það og vil þakka ráðherra og þeim sem þetta sömdu fyrir það. Ég sakna þess, ef þetta er rétt hjá mér, að ekki sé núna verið að taka á málefnum garðyrkjunnar og eins að gera hlutina þannig að hægt sé að fara í þessar virkjanir líkt og Hvalárvirkjun, þetta ríkisfyrirtæki, ef ég orða það þannig, sem ríkið á meiri hluta í og stendur ekki í vegi fyrir því, en þau lög sem það fyrirtæki vinnur eftir gera ekki ráð fyrir að það sé hægt.

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan, og er best að standa við það loforð, að ég ætla að geyma að ræða söluna á Landsneti, þ.e. að það verði skipt í rauninni um eigendur þar. Ég held að ég sé búinn að fara yfir þær athugasemdir sem ég ætlaði að gera núna, þannig að ég læt þetta gott heita í bili, frú forseti. En ég ítreka enn og aftur að það er margt gott í frumvarpinu, það er til bóta. Það er nauðsynlegt að endurskoða raforkulögin og vinna betur, en á þessum tímapunkti hef ég áhyggjur af þeim tveimur þáttum sem ég nefndi.