138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

raforkulög.

573. mál
[16:16]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fernt í ræðu hv. þingmanns sem ég vil bregðast við og vonandi svara ég að einhverju leyti því sem hann hefur áhyggjur af.

Í fyrsta lagi velti þingmaðurinn því upp varðandi stórnotendaskilgreininguna að áður hefðu verið lögð til átta megavött í frumvarpi. Þá var sú er hér stendur formaður iðnaðarnefndar og við reyndum að koma því frumvarpi í gegnum þingið. Það tókst ekki vegna þess að ekki náðist samstaða um það og það mætti mikilli mótstöðu. Þessi leið er í raun og veru sveigjanlegri vegna þess að hún gerir ráð fyrir þriggja ára aðlögunartíma sem miðast ekki eingöngu við 36 mánuði. Í athugasemdum við greinina þar sem fjallað er um þennan þátt kemur fram að talið er frá fyrstu afhendingu raforku að undanskildum uppkeyrslutíma. Eingöngu er talið frá þeim tíma þegar framleiðsla hefst. En auðvitað verður þetta skoðað í iðnaðarnefnd og án efa verða skiptar skoðanir um þetta eins og verið hefur en ég vona svo sannarlega að við náum að rýmka þessa stórnotendaskilgreiningu þannig að minni iðnaður fái sömu kjör og stóriðjan.

Í öðru lagi er einhver misskilningur í gangi hjá hv. þingmanni varðandi fjarskiptanetið vegna þess að það kom alveg skýrt fram í mínu máli og í frumvarpinu sjálfu að eingöngu er um það að ræða að fyrirtækið Landsnet geti nýtt umframgetu fjarskiptakerfis síns og selt það ef gat er á markaðnum. En ef laust er hjá einkaaðilum á fjarskiptamarkaðnum er fyrirtækinu ekki heimilt að bjóða það til sölu.

Tvennt annað ætla ég að nefna en ég verð að gera það, virðulegi forseti, í seinna andsvari mínu.