138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

raforkulög.

573. mál
[16:19]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er dálítið undarlegt að byrja ræðu á í þriðja lagi. En svo ég haldi áfram að svara hv. þingmanni, af því að hann nefndi garðyrkjubændur, þá er í þriðja lagi svo að ekki er tekið á þeim málum í þessu frumvarpi vegna þess að þau eru enn til skoðunar. Fundur er fyrirhugaður með 16 manna nefndinni og garðyrkjubændum þar sem menn ætla að fara yfir þessi mál og þar eiga sæti fulltrúar allra stjórnmálaflokka. Þessari 16 manna nefnd er síðan ætlað að skila af sér í haust og ég á von á því að hún taki með einum eða öðrum hætti á málefnum garðyrkjubænda. Ég vona að hv. þingmaður treysti þessari nefnd en í henni eiga sæti fulltrúar sveitarstjórna og líka fulltrúi þingflokks hv. þingmanns og þar geta allir komið sjónarmiðum sínum á framfæri og ég vona svo sannarlega að farsæl lausn náist um þau mál.

Ég ítreka samt það sem ég hef áður sagt að það skiptir líka máli að hér ríki jafnræði og að menn gæti að því vegna þess að fleiri atvinnugreinar eru undir, t.d. fiskeldi. Þetta er eitthvað sem menn verða að skoða í þessari umfjöllun.

Í fjórða lagi minntist hv. þingmaður á Vestfirði og þá get ég sagt honum frá því og vona að það gleðji hann að ég setti sérstakan vinnuhóp í það að fara yfir möguleika á frekari raforkuöflun á Vestfjörðum vegna þess að ekki þarf bara að gæta að afhendingaröryggi þar heldur er framtíðarsýn mín sú að Vestfirðingar verði þátttakendur í þeirri atvinnuuppbyggingu sem núverandi ríkisstjórn vinnur að. Það þýðir að Vestfirðir þurfa líka aukna raforku í framtíðinni og þess vegna á ég von á því að brátt komi niðurstaða frá raforkunefndinni (Forseti hringir.) sem gæti verið undirstaða að stefnumörkun fyrir Vestfirði og komandi stjórnvöld.