138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

raforkulög.

573. mál
[16:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi garðyrkjuna. Þetta snýst ekki um það hvort við treystum ágætri nefnd til að klára hlutina. Við þurfum að klára þá inni á Alþingi. Ljóst er að ekki er tekið á málefnum garðyrkjunnar í frumvarpinu eins og það lítur út í dag. Ég geri þó ráð fyrir að við höfum svigrúm til að fara yfir þann hluta þegar við fjöllum um frumvarpið í nefndinni. Ég held að nokkuð ljóst liggi fyrir hver vandi garðyrkjunnar og fleiri atvinnugreina er, þar á meðal fiskeldis eins og ég nefndi í ræðu minni, það þarf að finna þeim hillu í lögum og það verðum við að setjast yfir. Ég yrði ekki alveg sáttur við það að geyma þetta mál fram á haustið eða að nýtt þing eigi að klára það en allt hefur þetta sinn gang.

Ég fagna þessum vinnuhóp og er að sjálfsögðu ánægður með að hann sé í gangi varðandi Vestfirði og þátttöku þeirra í atvinnuuppbyggingu og öðru slíku. Hins vegar er alveg ljóst að það vandamál sem ég nefndi áðan t.d. varðandi Hvalárvirkjun og möguleika á að fara í hana og tengja hana við netið er ekki leyst og ekki er verið að reyna að leysa það með frumvarpinu sem hér liggur fyrir. Þar af leiðandi er það annar þáttur sem við þurfum að taka til skoðunar í nefndinni, hvort við viljum leggja áherslu á og vinnu í það að reyna að leysa það með einhverjum hætti.

Það er að sjálfsögðu mikilvægt og ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði varðandi þátttöku Vestfjarða í raforkunýtingu og framleiðslu en það er ljóst að eitthvert albesta tækifærið til að bæta þarna úr er að fara í þessa virkjun. Þetta er tappinn í dag, það að geta tengst þessu, (Forseti hringir.) og ég sakna þess að sjá það ekki í þessu frumvarpi.