138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

raforkulög.

573. mál
[16:24]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni frumvarp sem lýtur að ákveðnum mikilvægum og löngu tímabærum breytingum á raforkukerfi okkar með það m.a. fyrir augum að auka jafnræði og svigrúm fyrir nýsköpun í atvinnulífinu og tryggja enn frekar í sessi þjóðareign á flutningskerfi raforkunnar og auka sveigjanleika í þágu orkukaupenda.

Með frumvarpinu er kveðið enn skýrar á um þjóðareign á flutningsfyrirtækinu Landsneti frá því sem nú er. Samkvæmt gildandi lögum skal flutningsfyrirtækið vera í meirihlutaeigu ríkis, sveitarfélaga og/eða fyrirtækja í eigu þessara aðila en í þessu frumvarpi er kveðið skýrt á um það að fyrirtækið skuli framvegis vera í beinni eigu ríkis og/eða sveitarfélaga. Rökin eru ekki síst þau að girða fyrir óeðlileg hagsmunatengsl orkufyrirtækja í opinberri eigu sem eiga í dag flutningsfyrirtækið. Landsvirkjun er þar með tæplega 65% hlut, Rarik 22,5% og önnur orkufyrirtæki, Orkuveita Reykjavíkur og Orkubú Vestfjarða 6–7% hvort fyrirtæki. Þessi breyting kallar hins vegar eðlilega á nokkra aðlögun viðkomandi fyrirtækja sem þurfa að losa um eignarhluti sína og er því lagt til að hún komi til framkvæmda árið 2015.

Í frumvarpinu eru ákvæði sem eiga að auka sveigjanleika í kerfinu, svo sem um að ráðherra geti í sérstökum tilvikum veitt heimild til að reisa sjálfstætt flutningsvirki, enda tengist þá hvorki virkjun né notandi flutningskerfinu eða dreifikerfinu. Þarna eru víkkaðar út heimildir notenda til að tengjast beint við virkjun sem ég tel mjög til bóta og mikilvægt fyrir uppbyggingu á nýjum atvinnugreinum í landinu svo sem ef um er að ræða notendur sem eru alfarið háðir því að fá aðrar afurðir jarðhitavirkjunar en einungis raforku.

Það er afar mikilvægt skref að víkka út, eins og gert er í frumvarpinu, skilgreininguna á stórnotanda og opna þannig leið fyrir fleiri atvinnugreinar til að njóta þeirrar gjaldskrár sem fellur undir viðkomandi skilgreiningu. Hingað til hefur eingöngu stóriðjan fyllt þennan flokk en með þeirri rýmkun sem hér er lögð til ættu t.d. gagnaver, koltrefjaverksmiðjur og önnur atvinnustarfsemi að falla undir þessa skilgreiningu. Ég tel hins vegar, þó að þessi breyting sé vissulega til bóta og skref í átt til meiri jafnræðis í kerfinu, að ekki sé endilega nóg að gert í þeim efnum. Ég er þeirrar skoðunar að við í iðnaðarnefnd sem fær þetta mál til meðferðar og í þeirri nefnd á vegum iðnaðarráðherra sem vann þetta frumvarp að miklu leyti eigum að skoða hvort í framtíðinni sé rétt að hverfa frá þessu tvískipta fyrirkomulagi, þessari aðgreiningu í almenna notendur annars vegar og stórnotendur hins vegar en taka þess í stað upp hlutfallslegt gjaldskrárkerfi sem er í anda þess sem víða þekkist í álfu okkar og þá verði þeirri meginreglu fylgt að afsláttur stighækki í hlutfalli við aukna orkunotkun.

Það er mál sem við þurfum að fara vel yfir og skoða kosti þess og galla en þetta er fyrirkomulag sem við þekkjum víða í Evrópu og kosturinn er sá að þetta dregur úr þeim skörpu skilum sem geta orðið á þeim kjörum sem orkukaupendum eru boðin, orkukaupendum sem hugsanlega eru með mjög hliðstæða orkunotkun, munurinn á orkunotkuninni kann að vera tiltölulega smávægilegur og hlaupa á einu megavatti til eða frá en hins vegar geta kjörin sem þessum kaupendum eru boðin verið afar mismunandi sem við sjáum á því að ætla má að almennir notendur greiði allt að 30% hærra gjald fyrir flutning raforkunnar heldur en stórnotendur í kerfi okkar.

Þetta er eitt af þeim mikilvægu atriðum sem ég tel að við eigum að skoða í framhaldsmeðferð málsins en að öðru leyti fagna ég þessu frumvarpi og hlakka til að taka þátt í vinnu við það í iðnaðarnefnd þingsins.