138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[17:37]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta mál er komið hér fram þótt vissulega megi bæta það og ég hvet til þess að iðnaðarnefnd fari vel yfir málið í störfum sínum. Ég vil vekja athygli á að ég hef lagt fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðir sem hvetja til fjárfestinga erlendra aðila á Íslandi. Sú tillaga tekur að einhverju leyti til efnis í þessu frumvarpi til laga sem hér liggur frammi af hálfu iðnaðarráðherra.

Mig langar að velta upp og fara yfir, og vísa þar m.a. til þeirra sjónarmiða sem komu fram í ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar hér að framan, að við þurfum að sjálfsögðu að vanda til verks þegar festa á í lög ákvæði sem fela framkvæmdarvaldinu mikið vald. Þá erum við m.a. að framselja löggjafarvald hvað varðar skattlagningu og það er að sjálfsögðu atriði sem verður að vanda til, það er gríðarlega mikilvægt að vel sé farið yfir þetta í iðnaðarnefnd.

Það er eitt atriði sem mig langar að gera að sérstöku umtalsefni, það er 24. gr. frumvarpsins þar sem fjallað er um eftirlit með notkun ívilnunarinnar. Við höfum til meðferðar á þinginu rannsóknarskýrsluna margumræddu, af henni eigum við öll að draga lærdóm. Við þurfum að sjálfsögðu að taka mið af þeim starfsháttum sem tíðkuðust hér fyrir hrun bankakerfisins og læra af því. Við þurfum að gera það m.a. með bættum stjórnsýsluhætti. Hér er litlu púðri eytt í að fjalla um það hvernig eftirlit með framkvæmd þessa frumvarps verður, verði það að lögum.

Hér segir einfaldlega, með leyfi forseta:

„Til tryggingar á réttri notkun ívilnunar, sbr. 23. gr., ber aðila sem ívilnunar nýtur að senda iðnaðarráðuneyti árlega skýrslu um framvindu fjárfestingarverkefnis, hlut ívilnunar í framgangi þess, samtals fjárhæð veittrar ríkisaðstoðar á undanförnu ári og tilgreiningu á annarri starfsemi aðila ef einhver er.“

Þetta eftirlit nær ekki mjög langt, ég tel það gríðarlega mikilvægt að iðnaðarnefnd fari vel yfir og hugsi vel með hvaða hætti eftirlit skuli haft með þessari framkvæmd. Hér er verið að framselja mikið vald til ráðherra og að sjálfsögðu verður að halda vel utan um málaflokkinn. Því dugir ekki, að mínu áliti, að aðili sem nýtur ívilnunar skili skýrslu til ráðuneytisins og þar með ljúki eftirlitinu.

Það getur verið að fjallað sé um þetta á fleiri stöðum í þessu skjali en þetta sker mann aðeins í augu við fyrsta lestur. Ég vona að iðnaðarráðherra komi og útskýri þetta aðeins betur fyrir mér.

Frú forseti. Við höfum öll orðið vör við mikinn áhuga erlendra fjárfesta á að koma hingað til lands og byggja upp öflugt atvinnulíf. Þess vegna er mikilvægt að vel sé tekið á móti þeim aðilum, hvort sem um er að ræða erlenda eða innlenda aðila. Aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við hafa margar hverjar sett sér rammalöggjöf eins og þessa sem við fjöllum um í dag. Því er mjög eðlilegt að við tökum þetta mál upp og fjöllum um það.

Það eru ýmsir tálmar í íslenskri stjórnsýslu sem hindra að ýmis verkefni komist af hugmyndastigi á framkvæmdastig. Ekki aðeins að engin rammalöggjöf hefur verið til um erlendar fjárfestingar eða um fjárfestingar, heldur höfum við líka staðið í óvissu varðandi orkuafhendingu. Það liggur einfaldlega ekki fyrir hvernig þeim málum verður háttað og hver framtíðarsýnin er varðandi orkuna sem við ætlum að nýta til að afla gjaldeyristekna o.s.frv. Það hefur margoft verið rætt hér í þinginu frá því að ég kom og áður en ég tók sæti á þingi, að beðið sé eftir að rammaáætlun klárist, unnið sé að rammaáætlun um hvaða svæði má nýta og hvaða svæði á að vernda með tilliti til orkunýtingar.

Ég sé ekki að lagt hafi verið fram á þinginu frumvarp hvernig tekið verður á móti þeirri vinnu sem verkefnisstjórn um rammaáætlun hefur unnið eða er með á lokastigum. Það er ágætt ef hæstv. iðnaðarráðherra gæti svarað því hér á eftir hvernig staðan er, hvort eitthvað sé í pípunum eða hvort eitthvað sé væntanlegt. Vissulega er orkan í iðrum jarðar ein af okkar helstu auðlindum og við hljótum að ætla að nýta hana til þess að komast sem hraðast upp úr þeirri efnahagslægð sem við erum í.

Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að flestallar erlendar fjárfestingar sem hafa komið hingað til lands tengjast stóriðju. Þær hafa tengst nýtingu og sölu orku sem við virkjum og það er ekki nein tilviljun. Vegna þess að þetta er okkar sterka hlið og við hljótum að halda þar vel á spilunum. Þess vegna er rétt að gera einhverja áætlun, einhverja orkuafhendingaráætlun um hvað er í pípunum og hvenær það gerist. Eins og ég sagði áðan, hefur oft verið vísað til þess að beðið er eftir rammaáætlun og því rétt að það komi fram: Bíðum við bara eftir rammaáætlun eða er hún að koma? Förum við að sjá einhverja niðurstöðu úr þeirri vinnu eða er verið að tefja þá vinnu? Ég vonast til þess, þrátt fyrir að þetta sé ekki beint efni þessa frumvarps, að hæstv. iðnaðarráðherra sjái sér fært að svara þeim spurningum.