138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[17:43]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði réttilega um eftirlitið sem er gríðarlega mikilvægur þáttur. Það er ívilnunin sem er afmörkuð við verkefnið og umsækjandinn getur ekki — ívilnunin mun ekki ná til annarrar starfsemi, það eru mjög afmörkuð verkefni sem um er að ræða og skýrt skilgreind, sem fá að fara í gegnum þetta ferli.

Í öðru lagi er það rétt sem kemur fram í 24. gr. að viðkomandi aðila sem fær þessa ívilnun ber að senda reglulega skýrslu um verkefnið og stöðu þess. Að auki verður að koma fram að okkur ber að tilkynna um alla ríkisaðstoð til eftirlitsstofnunar EFTA sem fer yfir þetta, og þar með er komið tvöfalt eftirlit, innan lands og eftirlitið frá ESA. Þannig er ferillinn sem þetta frumvarp felur í sér. Þá verður líka að taka fram að sett eru gríðarlega ströng skilyrði til að fá þessar ívilnanir eins og áður hefur komið fram hér í umræðunni.

Varðandi rammaáætlunina, sem er gríðarlega stórt og mikið mál, þá ákváðum við vegna niðurstöðu rammaáætlunarnefndar að framlengja umsagnarfrestinn um tvær vikur og kemur niðurstaðan núna 3. maí. Við gerum jafnframt ráð fyrir að á næstunni verði lagt fram hér í þinginu frumvarp um meðferð rammaáætlunar. Það eru engar tafir á því, þetta er bara mikil vinna og stórar ákvarðanir sem þarf að taka. Það þarf að fara í gegnum ferli, t.d. friðlýsingarferlið og samspilið þar og þá náttúruverndarlöggjöf sem við höfum og gæta að ekkert skarist. Þetta er mikil vinna en við sjáum fyrir endann á henni og ég held að við séum komin með gott frumvarp sem á eftir að veita rammalöggjöf skýran stuðning.