138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi.

574. mál
[17:53]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hugleiðingu hans sem ég tel réttmæta. Vert er að minna á það að þetta frumvarp byggir á byggðakorti Evrópusambandsins og þegar við horfum til þess hvar fjárfestingar í starfandi fyrirtækjum hafa helst verið sjáum við örugglega að það er fremur utan byggðakortsins. Þetta frumvarp miðar annars vegar að því að örva fjárfestingar í landsbyggðarkjördæmunum þremur og hins vegar almennar ívilnanir sem fara ekki eftir þessu byggðakorti.

Þarna horfum við líka til nýfjárfestinga, þ.e. í nýjum verkefnum, og það er í raun og veru pólitíkin í þessu. Þetta er upphafsaðstoð til að hvetja fjárfesta til að staðsetja fjárfestinguna sína hér á landi eða t.d. í landsbyggðarkjördæmunum þremur. Þetta er örvun til þess.

Ég er sammála hv. þingmanni að við eigum að hafa sterkar almennar leikreglur, en þetta er viðbót við það. Þetta á að hvetja til þessarar fjárfestingar hér á landi og flokkast þetta undir byggðaaðstoð.

Ég held að við hv. þingmaður séum algjörlega sammála um það að við þurfum að koma íslensku efnahagslífi í eitthvert skikkanlegt horf. Að því er unnið hörðum höndum og það náttúrlega verður alltaf undirstaða þess, vegna þess að það er sama hvaða ívilnanir við bjóðum t.d. erlendum fjárfestum; ef stöðugleiki gengisins og stöðugleiki í efnahagslífinu og vextir fara ekki niður hér verðum við aldrei samkeppnishæf við þau ríki sem við keppum um þessar fjárfestingar við. Það er því algjör grundvallarforsenda til lengri tíma litið fyrir atvinnulífið allt og líka nýfjárfestingar.