138. löggjafarþing — 113. fundur,  27. apr. 2010.

vatnalög og varnir gegn landbroti.

577. mál
[18:20]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Lögin frá árinu 2006 hafa ekki tekið gildi, ég fór yfir það í löngu máli og rakti af hverju þau hafa ekki tekið gildi. Hér er ekki verið að fella lög úr gildi heldur afnema löggjöf sem tæki ella gildi 1. júlí nk. Allan þennan tíma hafa lögin frá 1923 verið í gildi og þau hafa að mörgu leyti staðist tímans tönn vel. Nú er samstaða um að þá löggjöf þurfi að endurbæta og uppfæra í takt við nýja tíma. Það er ekki rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni að hér sé verið að fella lög úr gildi og að skipan vatnamála verði í einhverri upplausn, eins og mátti skilja á máli hans. Þessi löggjöf hefur verið í gildi frá 1923. Árið 2006 var nýtt frumvarp samþykkt en það hefur aldrei tekið gildi og það er verið að fella brott, svo það sé algerlega á hreinu.

Varðandi seinni spurningu hv. þingmanns þá er þessi frumvarpssmíð nú í ferli. Við fáum umsagnir og leitum fanga víða þannig að þetta verði sem best úr garði gert og þess vegna hefur málið ekki komið hingað inn. Þetta er að miklu leyti byggt á skýrslu vatnalaganefndar sem ég og hv. þingmaður sátum í. Upp úr henni var smíðað frumvarp sem hv. fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar og lögfræðingur, Lúðvík Bergvinsson, kom að og sömuleiðis Aagot Óskarsdóttir sem var starfsmaður og starfandi sérfræðingur nefndarinnar, svo tveir séu nefndir. Eins og ég segi eru ekki öll nöfnin komin fram vegna þess að við leitum fanga mjög víða (Forseti hringir.) þegar við erum að ganga frá málum.